Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 15:01:21 (6114)

1997-05-12 15:01:21# 121. lþ. 121.15 fundur 528. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall, barnabætur o.fl.) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[15:01]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Sú samtenging tekjuskattkerfis og félagslegra bóta sem kemur fram í barnalífeyri eða barnabótum, vaxtabótum og mörgum öðrum bótum hefur gengið sér til húðar. Ég vil nefna eitt dæmi. Ef einstaklingur, einstætt foreldri, er með eitt barn þá fær hann 9.800 kr. á mánuði í barnabætur, þ.e. ef hann er með 150 þús. kr. á mánuði. Ef hjón eru með sömu tekjur í heild og eitt barn, þ.e. ef þrír einstaklingar þurfa að lifa á þessum 150 þús. kr. tekjum, þá fær fjölskyldan ekki nema 6.400 kr. í barnabætur. Sem sagt, þegar þrír einstaklingar þurfa að lifa af sömu tekjum þá fá þeir minni barnabætur. Ef tekið er dæmi af hjónum með tvö börn, annað yngra en sjö ára --- þetta kemur fram í fskj. með frv., og þau eru með 125 þús. kr. á mánuði til að lifa af öll fjögur, þá fær fjölskyldan í barnabætur 19.700 kr. á mánuði. En ef einstætt foreldri er með sama fjölda af börnum og sömu tekjur þá fær það 25.700 kr. á mánuði, þ.e. þegar þrír þurfa að lifa af þessari upphæð fá þeir hærri barnabætur heldur en ef fjórir þurfa að lifa af þessum sömu tekjum.

Þetta er náttúrlega alveg með ólíkindum og sýnir í hvers slags ógöngur þetta kerfi er komið eftir að búið er að stagbæta það aftur og aftur og menn eru löngu komnir frá þeim tilgangi með barnabótunum sem felst í því að jafna stöðu barna þannig að framfærsla barnanna sé óháð tekjum foreldranna og skattkerfið stuðli að því. Fyrir utan það að nú er lagt til að barnabæturnar skerðist með vaxandi tekjum og hverfi að lokum. Það er eins og að það eigi ekki að aðstoða þá sem hafa háar tekjur neitt við að ala upp börn umfram þá sem hafa háar tekjur og enga framfærslu af börnum. Þannig að hér erum við komin út í algjörar ógöngur með þetta kerfi sem stöðugt er verið að stagbæta og laga. Það er mjög brýnt að taka upp allt kerfið og stokka það upp.

Það eru mjög fáir sem greiða tekjuskatt yfirleitt. Það er þriðjungur af skattgreiðendum sem greiðir tekjuskatt. Ég held að það sé mjög brýnt að breikka þann hóp manna sem greiðir tekjuskatt. Tekjuskattur er notaður til að greiða niður félagslega þjónustu, heilbrigðiskerfi, menntakerfi o.s.frv. og hana nota allir, óháð tekjum. Og ég skil ekki af hverju í ósköpunum menn geta ekki borgað í hlutfalli við tekjur inn í þetta kerfi, þ.e. maður sem er með tvöfaldar tekjur borgi tvöfaldan skatt. Það er ekki þannig heldur borgar maður sem er með tvöfaldar tekjur oft fjórfalt eða fimmfalt meiri skatt heldur en sá sem hefur lægri tekjur. Þannig að mér finnst koma til greina að breikka stofn þeirra sem greiða inn kerfið.

Hér hefur mönnum orðið tíðrætt um hátekjuskattinn og að hann hafi verið lækkaður. Það er aldeilis ekki. Hann var hækkaður. Hann var hækkaður úr 5% í 7%, þ.e. þeir sem hafa tekjur yfir ákveðnu marki fengu ekki sömu lækkun og aðrir. Þetta stingur að sjálfsögðu í auga hjá því fólki sem er með þessar tekjur, sem oft á tíðum hefur mikla framfærslu af börnum vegna þess að þegar menn hafa mikla framfærslu af börnum þá þurfa þeir líka að hafa háar tekjur. Maður og kona sem þurfa að sjá fimm börnum farborða verða að sjálfsögðu að hafa hærri tekjur og leggja meira á sig heldur en fólk sem hefur engin börn. Og þetta fólk lendir oft og iðulega í hátekjuskatti og er oft á tíðum mjög illa stætt, fær ekki barnabætur af því það fer yfir mörkin og lendir oft í miklum vandræðum út af þessum háu sköttum og hátekjuskattinum.

Þetta frv. sem og önnur eru mjög fjandsamleg hjónabandinu. Mér finnst það vera alveg sérstakur kapítuli sem þarf að líta á að nú er það þannig að hjónabandið er eini skattalegi ramminn utan um fjölskylduna. Í óvígðri sambúð er enginn samningur, hvergi er skrifað undir neitt plagg í sambandi við óvígða sambúð. Það er ekkert lögfræðilegt sem segir að ákveðnir tveir einstaklingar séu í sambúð yfirleitt. Hjónabandið er eina lögfræðilega umgjörðin um fjölskylduna og hér er enn verið að vega að þeirri stofnun. Mér finnst það mjög miður og mér finnst þurfa að endurskoða alla skattalöggjöfina þannig að fólk sé ekki mikið betur sett utan hjónabands en innan, þannig að þeir sem eru í hjónabandi séu hvattir til þess að skilja og þeim sem ekki eru í hjónabandi sé ráðið frá því með skattalögum að ganga í hjónaband, sem tryggir öryggi barnanna og fjölskyldunnar í flestum tilfellum. Þannig að það frv. sem hér liggur fyrir sem er skattalækkun, og ég styð sem slíkt, lagar ekki þetta misræmi sem hefur þróast á undangengnum áratugum og felst í því að barnabætur eru ekki lengur barnabætur heldur sérstakur skattur á fólk sem á börn. Og það lagar heldur ekki það að skattkerfið er mjög fjandsamlegt hjónabandinu.