Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 15:08:01 (6115)

1997-05-12 15:08:01# 121. lþ. 121.15 fundur 528. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall, barnabætur o.fl.) frv., ÓÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[15:08]

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Þegar ég hlustaði á útvarpið í morgun um hálfáttaleytið voru þar fréttir að norðan. Aðallega ræddu þeir um veðrið í upphafi, en svo sagði viðmælandi þeirra að norðan að hann hefði farið til lögfræðings vegna fjármála sinna og fjölskyldunnar og það fyrsta sem lögfræðingurinn ráðlagði honum var að skilja, þá kæmust fjármálin í lag. Og það var barnabótaþátturinn sem var á bak við þessa ráðleggingu. Norðlendingurinn taldi að það væri náttúrlega ákaflega sérstætt að koma með þessa tillögu því þessi lögfræðingur hefði ekki einu sinni séð konuna hans, hvað þá heldur að hann þekkti hana eitthvað að ráði til að taka yfir höfuð mat á því hvort ráðleggingin væri rétt. En út frá fjárhagslegu sjónarmiði hafði þetta eindregið verið ráðlagt.

Ég held að þetta hljóti að vera mjög í anda þess sem rætt var hér áðan af hv. þm. Pétri H. Blöndal og búið er að vera í umræðunni alllengi, þ.e. að jaðarskattarnir í skattkerfinu í íslenska samfélaginu eru orðnir svo miklir að þeir eru farnir að snúast upp í andhverfu sína. Þeir eru hugsaðir til þess að hafa áhrif á það sem orðið hefur, það sem er orðin staðreynd. Þeir eru hugsaðir til þess, en eru í reynd orðnir áhrifavaldar á það hvað gerist í samfélaginu. Og þegar skattar snúast á þennan hátt upp í andhverfu sína, að fólk er byrjað að haga sér eftir sköttunum eins og farið er að gera í þessu tilfelli, að fólk kýs heldur óvígða sambúð og að fara í kringum þetta blessaða kerfi heldur en að vera í hjúskap einfaldlega vegna þess að það borgar sig miklu betur, þá erum við farin að hafa skatta sem að mínu viti eru fjandsamlegir börnum. Skatta sem eru fjandsamlegir börnum, skatta sem eru á þann veg að börnin skrökva til fyrir utan heimilið, segja að pabbi búi ekki heima, þeim hefur verið sagt að hann búi ekki heima, og þeim er uppálagt að taka þátt í að útbreiða ranga hluti frá fyrstu hendi til þess að verja kerfi sem foreldrarnir hafa ákveðið að hagnýta sér af því það er svo vitlaust, það er svo órökrétt að það nær ekki nokkurri átt.

Ég held að það hljóti að vera hægt að ná almennilegri þjóðarsátt um það að skattar manna af tekjum séu ákveðin prósenta og að bótakerfið sem verið er að greiða úr til samfélagsins, eins og t.d. barnabætur, séu bætur til viðkomandi einstaklinga --- bætur sem þeir taka við í dag en eiga eftir að endurgreiða þjóðfélaginu seinna með sköttum sínum þegar þau vaxa úr grasi. Og þannig finnst mér það rökrétt. En ef við höldum áfram og höfum okkar hugmyndir um að það eigi að verka eins og refsing á fólk sem er með örlítið hærri tekjur, að það ali upp börn, þá mun það hafa áhrif. Annaðhvort verður það til þess að fækka barneignum, sem fara kannski niður á sama stig og gerst hefur á Norðurlöndum --- barneignir fóru það langt niður á tímabili í ýmsum borgum, t.d. í Kaupmannahöfn, að það er af og frá að þeir viðhaldi sjálfum sér, eða þá hitt að við vöknum upp einn dag við það að þjóðfélagið hefur skipst í tvo hópa. Annars vegar verður hópur fólks sem er búið að reikna út að það er arðsamt að eiga börn vegna þess að það hefur það lág laun --- það velur þann kost. Þetta hefur gerst sums staðar þar sem innflytjendahópar láglaunafólks hafa verið miklir, þeir reikna það út að það er það arðbærasta sem konan getur gert undir þeim kringumstæðum. Og hins vegar er annar hópur í þjóðfélaginu sem hefur nú verið að berjast fyrir því að komast þokkalega af --- hann reiknar það út að honum er refsað stöðugt fyrir það ef hann vill ala upp börn í þessu samfélagi. Nú er svo komið að vissir aðilar erlendis hafa áttað sig á þessu. Mér er sagt að Norðmenn séu farnir að taka á sínum málum og breyta þessu á þann veg að það sé vinsamlegra börnum heldur en er hér á Íslandi.

Ástæðan fyrir því að ég fer í þessa umræðu er sú að ég skrifaði undir þetta frv. með fyrirvara. Minn fyrirvari er á þann veg að ég tel að það sé óverjandi annað en að jaðarskattanefnd skili inn tillögum um að jaðarskattarnir verði lækkaðir og að menn átti sig á því að það þjónar ekki hagsmunum íslenska samfélagsins að halda áfram með þá vitleysu sem þar er í gangi. Það þjónar ekki hagsmunum samfélagsins. Ég held líka að það sé nauðsyn að Alþingi Íslendinga geri sér grein fyrir því að sú breyting sem hér er lögð til, að hluta til er hún góð, lækkun skatta --- tekjuskatturinn var orðinn of hár, en að hluta til er ákveðinn hópur skilinn út undan. Hann fær enga skattalækkun vegna þess að hann tapar barnabótum sínum eftir sem áður á þann hátt að hann er talinn of tekjuhár.

Herra forseti. Það er vafalaust hægt að tala lengi um þessa hluti. Ég veit ekki hvort það þjónar neinum tilgangi en satt best að segja varð ég fyrir miklum vonbrigðum með að þetta frv. skyldi ekki taka á þessum þætti.