Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 15:38:37 (6122)

1997-05-12 15:38:37# 121. lþ. 121.7 fundur 256. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (heildarlög) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[15:38]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. formanni umhvn. fyrir svörin. Ástæðan fyrir því að ég spurði eru breytingar í frv. á orðalagi frá gildandi lögum. Breytingin er á þann veg að í stað þess að samkvæmt núgildandi lögum er fortakslaust heimilt að þétta byggð ef reist hefur verið varnarvirki, þá á að leggja mat á það áður en ákvörðun er tekin samkvæmt frv. sem nú er hér til afgreiðslu. Þessi breyting á orðalagi gefur eðlilega undir fótinn vangaveltum um hvort af hálfu nefndarinnar sé einhver vafi á gildi varnanna. Mér fannst því nauðsynlegt að kalla eftir áliti nefndarinnar áður en málið yrði afgreitt þannig að ljóst mætti vera á hvaða forsendum hv. umhvn. gerði sínar brtt. Þær skýringar sem formaður nefndarinnar hefur gefið byggjast á öðrum sjónarmiðum en þeim að efi sé um gildi varnarvirkjanna og get ég eftir atvikum verið sáttur við þær skýringar, einkum í ljósi þess sjónarmiðs sem ég hélt fram að ekki mætti draga fram einhvern efa um gildi varnarvirkjanna nema fyrir því væru rök sem menn legðu þá fram. Það hefur komið fram að svo er ekki, heldur er það almennt varúðarsjónarmið sem fyrir nefndinni liggur og er út af fyrir sig ekkert við það að athuga.