Afgreiðsla efh.- og viðskn. á lífeyrissjóðsfrv.

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 16:22:12 (6130)

1997-05-12 16:22:12# 121. lþ. 122.92 fundur 326#B afgreiðsla efh.- og viðskn. á lífeyrissjóðsfrv.# (aths. um störf þingsins), MF
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[16:22]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Það kom fram hjá hv. þm., formanni efh.- og viðskn., að einkennilegt væri að stjórnarandstaðan væri að rífast um mál sem ekki ætti einu sinni að afgreiða. En það er nú þannig að í raun er verið að afgreiða málið út úr nefndinni þar sem gerð er tillaga um að breyta 23 greinum frv.

Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendasambandið sendu hæstv. fjmrh. bréf þar sem þeir fóru fram á að frv. eins og það var lagt fram hér yrði látið liggja í sumar og menn fengju svigrúm til þess að skoða málið betur og reyna að ná samkomulagi. Þar var átt við frv. eins og það var lagt fram. En þegar búið er að taka allar þessar brtt. inn, breytingar á 23 greinum, þá er auðvitað full ástæða til þess að skoða málið út frá kannski allt öðrum sjónarhóli en þessir aðilar hafa gert hingað til og hafa reyndar sent sameiginlega umsögn um málið til efh.- og viðskn.

Það kom fram hjá einum hv. stjórnarliða sem greiddi atkvæði með stjórnarandstöðunni í nefndinni í morgun að þegar búið væri að ganga frá máli á þennan hátt bæri forseta þingsins skylda til að taka málið á dagskrá. Undan því yrði ekki vikist. Þetta væri mjög einkennileg afgreiðsla og einkennilegt að afgreiða svona og segja um leið: Málið verður ekkert rætt meir.

Við gátum heldur ekki fengið svör um það hverjir það væru sem ættu að koma að þeirri vinnu í sumar að endurskoða frv., það frv. sem við þekkjum eða frv. eins og það lítur út eftir að meiri hluti efh.- og viðskn. hefur gengið frá sínum brtt. Og frv., eins og hæstv. fjmrh. boðaði í morgun, verður prentað upp með öllum þeim breytingum. Þá erum við bara að ræða um allt annað mál.