Afgreiðsla efh.- og viðskn. á lífeyrissjóðsfrv.

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 16:24:49 (6132)

1997-05-12 16:24:49# 121. lþ. 122.92 fundur 326#B afgreiðsla efh.- og viðskn. á lífeyrissjóðsfrv.# (aths. um störf þingsins), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[16:24]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson komst svo að orði að með afgreiðslu lífeyrissjóðsfrv. úr nefnd væri verið að gefa vísbendingu um farveg. Og það er einmitt mergurinn málsins. Það er verið að gefa þau skilaboð frá þinginu að málið eigi að fara eftir þeim farvegi sem meiri hlutinn vill. Þetta mál, lífeyrissjóðamálið, er eitt allra stærsta mál sem lagt hefur verið fyrir yfirstandandi þing og það er afar brýnt að samstaða náist um það. Við í stjórnarandstöðunni erum sammála því að málið fari í skoðun í sumar en það hefði verið miklu eðlilegra að nefndin hefði gefið frá sér sameiginlegt álit þar sem allar helstu hugmyndir til breytinga hefðu verið reifaðar. Það hefði líka verið hugsanlegt, eins og tillaga kom fram um, að senda bréf til fjmrh. með þessum hugmyndum. Þessar tillögur sem fyrir liggja hafa verið kynntar og í sjálfu sér er ekkert grundvallaratriði að þær liggi fyrir sem þingskjöl enda er það ekki það sem fyrir meiri hlutanum vakir. Það er fyrst og fremst verið að gefa hér ákveðin skilaboð um það hvernig eigi að lenda þessu máli. Og það er alveg ljóst að um þær tillögur er ekki sátt.

En ég ítreka þá spurningu sem við viljum gjarnan fá svar við. Hvernig er meiningin að skipa þann vinnuhóp sem á að taka við málinu? Ég vildi gjarna fá það upplýst hjá hæstv. fjmrh.