Afgreiðsla efh.- og viðskn. á lífeyrissjóðsfrv.

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 16:32:46 (6136)

1997-05-12 16:32:46# 121. lþ. 122.92 fundur 326#B afgreiðsla efh.- og viðskn. á lífeyrissjóðsfrv.# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[16:32]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er borginmannlegt yfirbragð á þessari ríkisstjórn. Atferli hennar í málum launþega ber svip af þessu. ,,Við þorum að gera og við gerum það sem okkur sýnist.`` Aftur og aftur koma skilaboðin hingað inn á þingið um að við hin skulum lúta valdi þeirra. Ríkisstjórninni og stjórnarmeirihlutanum er sérstaklega umhugað um að setja málefni vinnumarkaðar og launþega í bönd. Það er alveg sérstakt áhugaefni sem hefur birst okkur hér. Þeir hafa verið að taka á samtryggingarmálunum í okkar félagslega velferðarkerfi. Hingað inn hefur komið frv. um stéttarfélög og vinnudeilur sem vakti harðar deilur við verkalýðshreyfinguna og fólkið í landinu. Atvinnuleysistryggingasjóðsfrv. fól í sér miklar skerðingar og tókst að afstýra því á síðustu stund hér á útmánuðum. Svo kemur lífeyrissjóðsfrv. og enn er óróleiki mikill og vaktar upp deilur. Meira að segja þegar mál er svo sett á frest þá er það gert á ámælisverðan hátt. Stjórnarmeirihlutinn hefur líka mótast af þessum vinnubrögðum. Og það er alveg ótrúlega óskynsamlegt að rífa mál út úr efh.- og viðskn. með valdi, með atkvæðagreiðslu, til þess eins að sýna og þvinga fram brtt. Sýna og þvinga fram brtt. sem ætlast er til að tekið sé mið af í vinnunni í sumar og þar með setja samráð við verkalýðshreyfinguna fullkomlega í uppnám.

Virðulegi forseti. Hv. þm. áréttaði það sem formaður efh.- og viðskn. að hann vildi með þessum tillögum móta í hvaða farveg málið ætti að fara í sumar. Og þrátt fyrir hinn góða tón sem fjmrh. setur hér fram, að þetta sé sáttargjörð, þá verður að segjast eins og er að þarna er ekki samhljómur og þetta eru fullkomlega óásættanleg vinnubrögð.