Afgreiðsla efh.- og viðskn. á lífeyrissjóðsfrv.

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 16:37:02 (6138)

1997-05-12 16:37:02# 121. lþ. 122.92 fundur 326#B afgreiðsla efh.- og viðskn. á lífeyrissjóðsfrv.# (aths. um störf þingsins), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[16:37]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir fór einfaldlega með ósannindi hér áðan um að stjórnarandstaðan hefði tekið sér einhvern frest til að velta fyrir sér hvort hún ætti að styðja brtt. meiri hlutans. Þetta er fráleitt. Hér er ekki rétt með farið. Þetta eru ósannindi. Og ég er hissa á hv. þm. að halda þessu fram. Við höfum hins vegar í stjórnarandstöðunni viljað sátt í framhaldi þessa máls. Það er búið að bíða í 25 ár, herra forseti, eftir heildarlöggjöf um lífeyrissjóðsmál. Ríkisstjórnin vill hins vegar allt annað. Hún vill breyta skipulagi á vinnumarkaði í tengslum við þessi mál. Aðilar vinnumarkaðarins og stjórnarandstæðingar eru andvígir brtt. meiri hluta efh.- og viðskn. og það sem meira er, forseti ASÍ hefur sagt að þetta séu brigð á yfirlýsingu hæstv. forsrh. Þetta eru svik á yfirlýsingu hæstv. forsrh. sem gefin var í sambandi við kjarasamninga. Það hefur forseti ASÍ sagt í viðtali hjá okkur í efh.- og viðskn. Það er alveg ljóst í hvaða farveg þetta mál var komið og þess vegna var lagt til og fallist á að fresta málinu. En þá bítur ríkisstjórnin undir forustu hæstv. fjmrh. höfuðið af skömminni með því að setja málið í þann farveg að ætla að setja breytingartillögurnar inn í frv. Og ég vil lesa upp úr bréfi hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

,,Ríkisstjórnin telur eðlilegt að nefndin afgreiði málið þannig að tillögur liggi fyrir með formlegum hætti. Í framhaldi af því verður frv. breytt samkvæmt tillögum meiri hluta efh.- og viðskn. og lagt þannig fyrir starfshóp sem fjmrh. mun skipa með þátttöku hagsmunaaðila.``

Þetta er farvegurinn og það hefur komið hér skýrt fram, herra forseti, m.a. hjá formanni nefndarinnar, Vilhjálmi Egilssyni, að búið er að marka farveginn. Það er verið að lögfesta í reynd stefnu fjmrh. í þessum efnum. Og ég er alveg hissa á hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. Ég spurði sérstaklega að því í nefndinni hvort hæstv. ráðherra Davíð Oddsson og hæstv. ráðherra Halldór Ásgrímsson væru sáttir við þetta því þetta kallar á stríð, það sem hér er verið að gera, þessi farvegur sem verið er að setja málið í. Þessi vinnubrögð eru ekki fallin til að vinna að málinu með opnum huga til að kalla fram (Forseti hringir.) sátt um þetta mikilvæga mál því að með þessum farvegi sem hér er markaður segir ríkisstjórnin við aðila vinnumarkaðarins (Forseti hringir.) sem eiga að starfa að þessu máli: ,,Okkur koma ykkar skoðanir ekki nokkurn skapaðan hlut við. Við höfum þegar ákveðið í hvaða farvegi þetta mál á að vera.`` Og því hefði ríkisstjórnin bara betur lögfest þetta mál. (Forseti hringir.) Það hefði þá verið skynsamlegra af hálfu hv. meiri hluta að koma bara og reyna að lögfesta þetta mál á hv. Alþingi. (Fjmrh.: Er þetta sérstök ósk þingmannsins?)