Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 17:51:45 (6160)

1997-05-12 17:51:45# 121. lþ. 122.13 fundur 528. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall, barnabætur o.fl.) frv., ÖJ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[17:51]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Frv. það sem við erum hér með til afgreiðslu er til komið vegna kosningaloforða ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, sem hún hefur núna á miðju kjörtímabili gert að verslunarvöru í tengslum við kjarasamninga. Þetta er ekki hluti af kjarasamningum. Og þetta byggir ekki á vilja samtaka launafólks. Samtök launafólks vildu hins vegar fá fram breytingar á skattalögum, vildu fá fram réttlátar breytingar á skattalögum, vildu að sköttum yrði réttlátar skipt niður. En ríkisstjórnin, sjálfri sér samkvæm, hefur búið svo um hnútana að ríkasti hluti þjóðfélagsins nýtur best. Þetta eru forkastanleg vinnubrögð sem segja sína sögu um þá ríkisstjórn sem fer með völdin í landinu. Þess vegna get ég ekki stutt þetta frv., mun hins vegar styðja þá brtt. sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson hefur lagt fram.