Aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 20:48:10 (6166)

1997-05-12 20:48:10# 121. lþ. 122.24 fundur 90. mál: #A aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum# (EES-reglur, vinnuvernd barna og ungmenna) frv., SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[20:48]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil að það komi fram við þetta tækifæri, sem ég hef í andsvari, að ég deili ekki skoðunum hv. þm. Magnúsar Stefánssonar. Ég tel að þetta frv. sé mjög til bóta og það verndi sjálfsögð réttindi einstaklinga undir 18 ára, þ.e. barna og unglinga. Sú grein sem var kannski mest rædd í frv. og mönnum þótti erfiðust var 4. gr. þar sem segir að óheimilt sé að ráða ungmenni til vinnu sem er unnin við tilteknar aðstæður og dregnar eru fram mjög alvarlegar aðstæður sem eru t.d. taldar ofvaxnar líkamlegu eða andlegu atgervi barna og geti valdið varanlegu heilsutjóni o.s.frv. Gert er ráð fyrir að ráðherra hafi heimild til að setja reglugerð til að uppfylla þessar kröfur eftir að stjórn Vinnueftirlitsins hefur komið með ábendingar.

Það eru hérna ýmis mjög góð ákvæði eins og að þessir einstaklingar eigi að fá minnst 14 tíma hvíld á sólarhring o.s.frv. Mér finnst þetta ekkert mjög óljóst frv. og við erum aðilar að EES. Þess vegna var nauðsynlegt að setja þessi lög. Það er alveg ljóst að ef við hefðum ekki gert það, þá hefðum við þess vegna þurft að segja okkur úr EES, sem ég held að sé nú ekki meiningin þannig að ég vil að það komi skýrt fram að ég tel að þessi löggjöf sem við erum að staðfesta sé mjög til bóta og alveg sjálfsögð til þess að vernda okkar börn og unglinga.