Aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 20:49:57 (6167)

1997-05-12 20:49:57# 121. lþ. 122.24 fundur 90. mál: #A aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum# (EES-reglur, vinnuvernd barna og ungmenna) frv., MS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[20:49]

Magnús Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Orð félaga míns og hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur hafa í rauninni ekki breytt afstöðu minni. Ég tel að allt of margt sé óljóst í þessu sambandi. Hún kom inn á það að ráðherra þurfi að setja reglugerðir samkvæmt umsögn Vinnueftirlitsins og það sýnir kannski líka hvað er margt óljóst í málinu þannig að ég tel að það standi alveg sem ég hef sagt.

Hvað varðar Evrópska efnahagssvæðið, þá er það rétt að þetta er tilskipun sem við þurfum að lögfesta. En það sem ég sagði í ræðu minni var að við þurfum að varast að túlka þær tilskipanir þrengri en efni standa til. Og ég hef ekki sannfæringu fyrir því að við höfum sloppið frá því í þessu efni.