Aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 20:51:34 (6169)

1997-05-12 20:51:34# 121. lþ. 122.24 fundur 90. mál: #A aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum# (EES-reglur, vinnuvernd barna og ungmenna) frv., BH
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[20:51]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég er ein þeirra þingmanna sem skrifa undir nál. félmn. með fyrirvara en eins og mun skýrast í máli mínu á eftir, þá er það tilkomið af allt öðrum ástæðum en þeim sem hv. þm. Magnús Stefánsson nefndi til sögunnar sem ástæðu fyrir sínum fyrirvara.

Ég vil byrja á að fagna því að þetta frv. skuli loksins vera komið hingað til umræðu en eins og fram hefur komið, þá snýst málið um lögleiðingu á tilskipun ESB um vinnuvernd barna og ungmenna. Á meðan á meðferð málsins í hv. félmn. stóð var farið fram á það af hálfu meiri hlutans að bætt yrði við ákvæði um vinnutíma vegna vinnutímatilskipunar ESB og er það gert í því frv. sem nú liggur fyrir, þ.e. þeim brtt. sem fyrir liggja. Eins og fram kom í áliti nefndarinnar kom fjöldi manns á fund hennar og nokkrir aðilar skiluðu auk þess skriflegri umsögn um málið. Það er þó rétt að vekja athygli á því strax í upphafi að þeir utanaðkomandi aðilar sem skiluðu umsögnum eða komu fyrir nefndina vegna málsins voru aðeins beðnir um að tjá sig um lögleiðingu tilskipunarinnar um vinnuvernd barna og ungmenna en ekki um lögleiðingu tilskipunarinnar um vinnutíma. Þær umsagnir sem fyrir liggja varða því ekki þá brtt. nefndarinnar að breyta ákvæði laganna um lágmarkshvíldartíma sem er byggt á vinnutímatilskipuninni.

Það er fagnaðarefni að þetta frv. skuli loksins vera komið fyrir hið háa Alþingi vegna þess að við erum fyrir löngu komin í skömm hvað varðar lögleiðingu beggja þessara tilskipana sem frv. byggir á. Aðra þeirra átti að lögleiða í júní 1996, hina í desember 1996.

Við Íslendingar höfum því miður ekki verið öðrum þjóðum til fyrirmyndar að þessu leyti, enda virðumst við ætla að slá öll met hvað varðar kærur vegna framkvæmdar EES-samningsins. Það er einhvern veginn svo að það virðist falla okkur betur að skuldbinda okkur með því að undirrita alþjóðlega samninga en standa síðan við skuldbindingarnar sem þær fela í sér og felast m.a. í því að aðlaga löggjöf okkar að þeim og því miður hefur málsmeðferðin í þessu máli borið keim þessa leiðindaávana.

Það má líka vekja athygli á og minna á það að saga þessara tilskipana, einkum saga vinnutímatilskipunarinnar er orðin erfið og löng og get ég nefnt það sem dæmi að samtök launafólks þurftu að berjast fyrir því mjög lengi að fá það viðurkennt að fullgilding tilskipunarinnar um vinnutíma væri hluti af skuldbindingum Íslands vegna EES-samningsins. Þar stóðu atvinnurekendur í vegi og nutu til þess tilstyrks stjórnvalda lengi vel. En ég tel bæði þessi mál vera þess eðlis að þau séu mjög til bóta fyrir íslenskt launafólk og því fagna ég tilkomu þeirra.

Í nál. er það rakið að nefndin hafi rætt ákvæði frv. um að óheimilt sé að ráða ungmenni til vinnu sem talin er ofvaxin líkamlegu eða andlegu atgervi þeirra og vinnu sem stofnað geti heilsu þeirra í hættu vegna mikils kulda, hávaða, hita eða titrings. Í meðförum nefndarinnar komu fram miklar efasemdir um þetta ákvæði og reyndar einkum af hálfu stjórnarliðanna í nefndinni er töldu ákvæðið bjóða upp á mun þrengri túlkun en sjálf tilskipunin gerði ráð fyrir og þess vegna var fallist á það af hálfu nefndarinnar að setja fram brtt. sem legði áherslu á að þarna ætti að vera um óvenjumikinn hita, kulda o.s.frv. að ræða.

Efasemdir stjórnarliðanna í hv. félmn. gengu út á það fyrst og fremst að hætta væri á því að við Íslendingar værum að ganga mun lengra en ástæða væri til við túlkun á tilskipuninni. Það væri hætta á því að ákvæði frv. væru túlkuð þannig að þau mundu útiloka ungmenni í óeðlilega miklum mæli frá vinnu. Ekki síst komu fram athugasemdir um hæfni Vinnueftirlitsins til að meta það hvenær vinna gæti fallið undir þessa skilgreiningu. Frumvarpið gerir ráð fyrir því, eins og hér hefur reyndar verið rakið, að ráðherra setji reglur um framkvæmd greinarinnar að fengnum tillögum Vinnueftirlits ríkisins. Undirrituð var í hópi þeirra nefndarmanna sem töldu þessar áhyggjur fullkomlega óþarfar, enda sé Vinnueftirlit ríkisins best til þess fallið að meta álag eða áhættu sem fylgir vinnu, enda þekki ég ekki aðra stofnun eða annan stað á Íslandi þar sem saman er komin meiri sérþekking varðandi slíka þætti en einmitt hjá Vinnueftirliti ríkisins.

Það var m.a. af þessum ástæðum og vegna þessarar gagnrýni að farin var sú leið í nál. að setja fyrirvara í álitið þess efnis að nefndin telji rétt að þegar settar verði nánari reglur um þessi atriði, væru ákvæðin m.a. skýrð svo að t.d. öll almenn vinna ungmenna í frystihúsum og almenn byggingarvinna geti ekki talist vinna sem felur í sér hættu fyrir heilsu ungmenna. Ég tel slíkan fyrirvara ekki standast efnislega hreint út sagt, og vil að það komi skýrt fram hér, að að mínu mati stenst slíkur fyrirvari ekki. Einfaldlega er ekki hægt að setja svo almennan fyrirvara við efni tilskipunarinnar.

(Forseti (GÁ): Forseti vill spyrja hv. þm. hvort hann vildi fresta ræðu sinni um stund meðan hann freistaði þess að ná fram afbrigðum sem hann þarf að ná hér.)

Sjálfsagt, herra forseti, að verða við því.