Opinber fjölskyldustefna

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 22:23:41 (6177)

1997-05-12 22:23:41# 121. lþ. 122.25 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., BH
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[22:23]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með þeim sem hafa talað um að hér sé mjög gott mál á ferðinni og mjög æskilegt að stjórnvöld setji sér stefnu í málefnum fjölskyldunnar, þótt vissulega hafi verið deilt um það í félmn. hvernig sú stefna eigi að vera eins og fram hefur komið.

Ég er ein þeirra sem skrifa undir álit hv. félmn. með fyrirvara og vil gefa skýringu á þessum fyrirvara. Meginástæða fyrirvarans er sú að ég hefði viljað sjá í tillögunni stofnun sjóðs um fjölskylduvernd í anda þess sem lagt er til í brtt. okkar hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur sem hún gerði ágætlega grein fyrir áðan. Að auki vil ég skýra fyrirvara minn með því að ég hefði viljað sjá ítarlegri og afdráttarlausari fjölskyldustefnu og má þar vísa til þáltill. sem flutt var á 120. löggjafarþingi og byggð var á tillögum landsnefndar um ár fjölskyldunnar. Flutningsmenn voru úr öllum stjórnarandstöðuflokkum og tillögunni fylgdi lokaskýrsla landsnefndar um ár fjölskyldunnar. En að baki þessari tillögu landsnefndarinnar lá mikil vinna fjölmargra einstaklinga sem margir hverjir og allflestir bjuggu yfir gríðarlegri þekkingu á málefnum fjölskyldunnar. Ég vil eiginlega fullyrða að þar hafi verið saman kominn sá hópur einstaklinga sem hvað best þekkir til málefna fjölskyldunnar. Að landsnefndinni komu fulltrúar 30 félagasamtaka og stofnana sem á einn eða annan hátt tengjast fjölskyldunni.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sem var félmrh. á sínum tíma lagði þessa tillögu fyrir þingið en hún fékkst ekki afgreidd og það lá fljótlega ljóst fyrir að núverandi hæstv. félmrh. hygðist ekki leggja til að tillaga landsnefndarinnar yrði samþykkt óbreytt þótt sú hugmynd sem hér er lögð fram sé að nokkru leyti byggð á þeirri vinnu.

Tillagan sem hérna liggur fyrir er að mínu mati ekki eins afdráttarlaus og sú sem lögð var til af landsnefndinni. Ekki síst má ráða það af því að nú er ekki lagt til að fjölskyldusjóðurinn verði settur á laggirnar. Í staðinn á að líta á það sem sjálfsagðan hlut að fé verði varið til þeirra verka sem tillagan gerir ráð fyrir. Slíkt verði metið hverju sinni. Þetta tel ég vera hluta af geðþóttapólitík núverandi ríkisstjórnar þegar kemur að því að verja fjármunum til uppbyggingar velferðarkerfisins. Það á að afnema alla lögbundnar fjárútlátaheimildir og láta framlögin ráðast af geðþótta hverju sinni. Svona stjórnunarhættir eru að mínu mati skref langt til fortíðar því að það er eðlileg og sjálfsögð krafa að með stefnumótandi ákvörðunum á þinginu séu teknar samhliða ákvarðanir um fjárheimildir. Annars er stefna er lítils virði, þ.e. ef það á að ráðast af geðþótta hverju sinni hvort fé sé varið til framkvæmda hennar og því miður óttast ég að sú stefna sem hér er lögð til, eins ágæt og hún er að öðru leyti, verði bara klisja, að ekki verði lagt í það fé hverju sinni að ganga í þau verkefni sem hún gerir ráð fyrir, því að ella getur maður spurt sig að því hvers vegna í ósköpunum mátti þá ekki stofna sjóðinn og tryggja þannig framlög til framkvæmda stefnunnar.

Eitt annað sem ég vildi gera að umtalsefni er sá hluti tillögunnar þar sem lagt er til að sköpuð verði skilyrði til að fullgilda samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 156, um stafsfólk með fjölskylduábyrgð. Ég get ekki annað en fagnað því að þessi viljayfirlýsing hæstv. ríkisstjórnar komi hér fram, enda hef ég verið talsmaður þess lengi að Ísland standi við skuldbindingar sínar í alþjóðlegu vinnumálasamstarfi og fullgildi samþykktir stofnunarinnar í meira mæli en nú er. Ég hef margoft rakið þrautagöngu íslenskrar verkalýðshreyfingar í glímunni við atvinnurekendur um fullgildingar samþykkta, ekki síst samþykktar nr. 156 sem hér er lagt til að verði fullgilt og nr. 158, um uppsögn af hálfu atvinnurekenda. Ég tel að í þeirri deilu á milli atvinnurekendasamtaka og launafólks hefði þriðji aðilinn í þríhliða samstarfinu, þ.e. ríkisstjórn Íslands, átt fyrir löngu að höggva á hnútinn og leggja til fullgildingu þessara mikilvægu samþykkta.

Núna liggur fyrir viljayfirlýsing ríkisstjórnarinnar um að fullgilda samþykkt nr. 156 og fagna ég því og styð það. Ég taldi orðalag tillögunnar óskýrt eins og hún var lögð fyrir í upphafi og gerði fyrirspurn til félmrn. um það hvaða skilyrði ráðuneytið teldi að þyrfti að skapa áður en tillaga yrði gerð um fullgildingu samþykktarinnar, því eins og hér var rakið áðan þá gerði tillagan ráð fyrir því að sköpuð verði skilyrði til þess að fullgilda þessa samþykkt. Í svari ráðuneytisins segir, með leyfi forseta:

,,Miðað við afstöðu samtaka atvinnurekenda er ljóst að veiti Alþingi ríkisstjórninni heimild til að fullgilda samþykktina felst einnig í þeirri afstöðu ósk um að lagt verði fram frv. til laga þar sem starfsfólki er ber fjölskylduábyrgð verði veitt sérstök vernd gegn uppsögnum ráðningarsamnings. Hér getur komið til álita að endurskoða lög nr. 19/1979, um rétt verkafólks til uppsagnarfrests að störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla, með það að markmiði að taka upp í þau lög ákvæði 8. gr. samþykktarinnar nr. 156, um fjölskylduábyrgð`` sem er helsti ásteytingarsteinninn á milli aðila vinnumarkaðarins, ,,um að fjölskylduábyrgð geti ekki verið gild ástæða til uppsagnar starfs. Rétt þykir að leggja áherslu á að heimili Alþingi fullgildingu verði sú heimild ekki nýtt fyrr en aðstæður hér á landi eru í samræmi við samþykkt ILO nr. 156.``

Að þessum skýringum ráðuneytisins fengnum tel ég tillögugreinina vera ásættanlega. Það liggur ljóst fyrir af ráðuneytisins hálfu að það sem þarf að gera er að gera þær lagabreytingar sem samþykktin kallar á. Og verði þessi tillaga samþykkt í hinu háa Alþingi á vorþinginu eins og við vonumst nú til, þá hlýtur að liggja ljóst fyrir að ríkisstjórnin hefur skuldbundið sig til að gera þessar lagabreytingar og vonandi liggja þær þá fyrir á haustdögum þannig að hægt sé að leggja fram tillögu um sjálfa fullgildingu samþykktarinnar.