Opinber fjölskyldustefna

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 23:00:21 (6182)

1997-05-12 23:00:21# 121. lþ. 122.25 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[23:00]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég verð að lýsa því yfir að ég er mjög slegin að heyra að tillaga um að auka rétt feðra um hálfan mánuð skuli hafa verið svæfð í heilbr.- og trn. á meðan við erum svo í næstu nefnd að setja fram tillögu til þingsins til afgreiðslu, stjórn og stjórnarandstaða, um að auka rétt feðra og hvetja feður til að nýta sér þann aukna rétt. Auðvitað hlýtur tilfinningin að verða sú að ekki fylgi þá hugur máli af því að hér er um að ræða tillögu sem á eftir að útfæra á meðan hitt var frumvarpsákvæði sem hefði e.t.v. tekið strax gildi. Ég er mjög áhyggjufull að heyra þetta.

En það er annað, virðulegi forseti, sem kemur mér í hug við þessar upplýsingar. Mikið afskaplega er erfitt að vera um kvöld að ræða þau mál sem eru að koma út úr nefndum, mál sem hafa verið til umfjöllunar meira eða minna allan veturinn og nú á að fara að taka á þeim og afgreiða þau í umræðu hér, að þá gerist það aftur og aftur að við erum að ræða málin en forustufólk stjórnarmeirihlutans í nefndunum sést ekki hér. Það er ekki hér til þess að ræða við okkur og nú hefði legið beint við að ræða við varaformann þessara tveggja nefnda. Hvernig má vera að þessi árekstur verði á pólitík í annarri nefndinni að segja: ,,Nú skulum við auka réttinn og hvetja til þess að hann sé nýttur.`` Og segja svo í hinni nefndinni: ,,Nei, nei, það má ekki auka hann um hálfan mánuð.`` Við eigum engin svör hér, en getum talað hvert við annað og lýst yfir áhyggjum okkar og þetta er alveg óásættanlegt.