Opinber fjölskyldustefna

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 23:13:28 (6186)

1997-05-12 23:13:28# 121. lþ. 122.25 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[23:13]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég sé mig knúinn til þess að leggja orð í belg, sérstaklega vegna þess að nóttin er ung og ég er viss um að við getum átt skemmtilega nótt saman við að ræða um þáltill. sem hér liggur fyrir um mótun opinberrar fjölskyldustefnu. (ÁRJ: Það er enginn stjórnarliði í salnum.) Það er allt í lagi þó að enginn stjórnarliði sé í salnum vegna þess að ég þarf í upphafi máls míns að eiga orðastað við nefndarmenn og þá sem í hv. félmn. sitja.

Hér segir í brtt. frá félmn., sem ég út af fyrir sig er að flestu leyti sammála, að fjölskyldan sé uppspretta lífsgilda. Þetta orðalag var ekki að finna í hinni upphaflegu þáltill. Þegar ég skoða þessa brtt. og les nefndarálitið til þess að finna hver er skilgreining á fjölskyldu, þá er erfitt að finna það nákvæmlega. Þó segir í nefndaráliti að varðandi skilgreiningu á fjölskylduhugtakinu hafi verið stuðst við þá skilgreiningu sem var sett fram af landsnefnd um ár fjölskyldunnar árið 1994 og þar er fjölskyldan skilgreind sem hópur einstaklinga sem á sér sameiginlegt heimili þar sem menn deila tómstundum o.s.frv. Hópur einstaklinga.

Ég velti því fyrir mér hvort með þessu orðalagi sé ekki sneitt fullharkalega að þeim sem ekki falla undir þessa skilgreiningu en eiga samt sannanlega ágætt líf sem er fullt af góðum gildum. Ég er sammála því að fjölskyldan er afskaplega mikilvæg og sennilega er hún hornsteinn okkar samfélags eins og það er byggt upp í dag. En ef við horfum á þróunina á Vesturlöndum þá sjáum við að það er eitt merkilegast, eitt stendur upp úr varðandi þróun fjölskyldunnar, þ.e. að þeim fjölgar sem búa einir. Það er líka fjölskylda eða það ætti að vera hægt að segja að slíkt líf sem menn hafa kosið sér sjálfir oft og tíðum sé líka uppspretta lífsgilda. Það er ekki hægt, finnst mér, að taka svona til orða vegna þess að ef maður les þetta saman með skilgreiningunum sem vísað er til í nefndarálitinu, þá finnst mér eins og hér gæti í besta falli ómeðvitaðra fordóma gagnvart einstaklingunum, þeim sem annaðhvort af eigin hvötum kjósa að lifa einir, og þeir eru margir og þeim fjölgar, eða þeir sem einhverra hluta vegna verða að lifa einir. Ég held samt sem áður að þeirra líf sé líka uppspretta mikilvægra lífsgilda og ég er ekki alls kostar sammála þessu orðalagi.

Ég vildi síðan, herra forseti, aðeins ræða þessa tillögu sem liggur fyrir út frá sjónarhóli stjórnarliða vegna þess að nefndin samþykkti tillöguna einróma eins og hún liggur fyrir. Það er dálítið merkilegt að lesa saman einstaka þætti tillögunnar og bera þá síðan saman við það sem ríkisstjórnin er að gera. Ég er auðvitað algjörlega sammála því sem stendur t.d. í II. kafla brtt. undir tölul. 4 þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Að gildi hjónabandsins sem eins traustasta hornsteins fjölskyldunnar verði varðveitt og þess verði meðal annars gætt við setningu skattareglna að þeir sem ganga í hjónaband standi ekki verr að vígi en aðrir í skattalegu tilliti.``

Ég ímynda mér að flestir séu þessu sammála. En hvernig er staðan í dag? Gengur ekki það sem ríkisstjórnin er að gera í dag þvert á þetta? Ég spyr hv. formann félmn. sem hefur gaumgæft þessi mál: (Gripið fram í.) Er ekki rétt skilið hjá mér að sú stefna sem félagar hennar úr stjórnarliðinu standa að í gegnum samþykkt sína á þessari tillögu, er í algjörri andstöðu við það sem þessir sömu stjórnarliðar eru að samþykkja með ýmsum aðgerðum ríkisstjórnarinnar? Er það ekki svo? Ég spyr sérstaklega af því að nú er kominn í salinn einn hinn vaskasti meðal efnahagsfrömuða ríkisstjórnarinnar: Er ekki rétt að þær skattareglur sem ríkisstjórnarliðar hafa verið að beita sér fyrir gera það einmitt að verkum að þeir sem eru giftir geta við vissar aðstæður staðið miklu, miklu verr að vígi en þeir sem ekki eru í hjónabandi? Ég held því fram að þær skattareglur sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson og aðrir félagar hans í stjórnarliðinu hafa verið að samþykkja vinni frekar að því að sundra hjónabandinu en að styðja það sem grunneiningu og varðveita gildi þess, eins og hér segir, sem: ,,traustasta hornsteins fjölskyldunnar``. Mér finnst þess vegna mjög undarlegt að sjá hérna stjórnarliðana lýsa því yfir að þeir telji að það eigi að gæta þess þegar settar eru reglur um skattlagningu að hjónabandið sé virt.

Ég er þeirrar skoðunar og það hefur komið fram í umræðum hér og það hefur komið fram í fjölmiðlum að þær reglur og skattabreytingar sem ríkisstjórnin hefur verið að beita sér fyrir stuðli ekki að því að styrkja hjónabandið. Og það er auðvitað mjög sérkennilegt að Sjálfstfl. sem hefur litið á sig sem sérstakan gæsluflokk fjölskyldunnar, skuli standa að þessu. Ég veit að það kann að vera að augu mín séu haldin í þessu efni og þá mun hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sem einnig á sæti í félmn. koma hér á eftir og ljúka þeim upp með snjallri röksemdafærslu sinni. Ef hann gerir það ekki, hlýt ég að álíta sem svo að hann sé sammála mér að í þessari samþykkt sé algjör þverstæða ef hún er skoðuð með hliðsjón af því sem ríkisstjórnin hefur verið að samþykkja.

Á bls. 3, herra forseti, í III. kafla þessarar tillögu undir tölul. 3, sem ber heitið: Réttur beggja foreldra til fæðingarorlofs, segir, með leyfi forseta:

,,Að feðrum verði tryggður aukinn réttur til fæðingarorlofs og þeir sérstaklega hvattir til að nýta hann.``

Hvernig er staðan í þessum málum í dag, herra forseti? Hún er þannig að nú er að renna sitt skeið á enda framkvæmdaáætlun um jafnrétti sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir átti frumkvæði að meðan hún sat á stóli félmrh. Eitt af því sem þar segir er að áður en sú framkvæmdaáætlun rennur sitt skeið á enda, þá skuli lögfestar reglur um fæðingarorlof feðra. Nú er þessi áætlun að verða búin og það liggur alveg skýrt fyrir að ekki á að verða við þessari framkvæmdaáætlun. Það á að svíkja hana. Hvers vegna fullyrði ég þetta? Vegna þess að eins og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir gat um í ræðu sinni áðan, þá hefur það gerst í heilbr.- og trn. að stjórnarliðarnir hafa ekki treyst til þess einu sinni að hleypa hér til atkvæða í hinu háa Alþingi þáltill. sem tveir hv. þm., Ögmundur Jónasson og Steingrímur Jóhann Sigfússon, fluttu um fæðingarorlof feðra. Og það var ekki beinlínis verið að reisa háan múr þar. Það var einungis verið að óska eftir því að við endurskoðun laga um fæðingarorlof verði feðrum tryggður sjálfstæður réttur sem nemur tveggja vikna orlofi á launum við fæðingu barns. Þetta er ekki giska mikið þegar til þess er horft að krafa eða tillögur karlanefndar Jafnréttisráðs miða að því að fjórir mánuðir af 12 mánaða fæðingarorlofi verði bundnir föður. Með öðrum orðum liggur fyrir að í þessari tillögu um opinbera fjölskyldustefnu er stjórnarliðið að segja að það sé hið besta mál að stefna að því að skapa sjálfstæðan rétt feðra til fæðingarorlofs. En nákvæmlega sömu dagana og þeir eru að samþykkja þetta, þá fella þeir tillögu um það í annarri fagnefnd þingsins, þrátt fyrir að það sé líka ljóst að í gildi er á vegum ríkisstjórnarinnar áætlun sem bókstaflega segir að það sé vilji þingsins að þetta sé samþykkt. Ég spyr þess vegna, herra forseti: Er nokkuð að marka þessa menn? Er nokkuð að marka vilja þeirra á bak við þessa tillögu um opinbera fjölskyldustefnu? Ég held að svo sé ekki og ég gef lítið fyrir hana. Ég gef nánast ekki neitt fyrir hana vegna þess að ég hef það fyrir mér að tveimur mikilvægustu þáttum hennar, að því er varðar annars vegar hjónabandið og skattareglur sem því viðkemur og hins vegar fæðingarorlof feðra, þá eru þessir sömu stjórnarliðar að brjóta stefnuna sem þeir eru að leggja fram og þykjast vera að samþykkja í þessari ágætu tillögu sem kemur frá félmn. Og ég verð að segja það, herra forseti, að hafi ég einhvern tíma kynnst hræsni, þá er það í þessu.