Opinber fjölskyldustefna

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 23:29:31 (6189)

1997-05-12 23:29:31# 121. lþ. 122.25 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[23:29]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki skilið hæstv. ráðherra öðruvísi en svo að hann hafi ekki skipt um skoðun, það eigi að greiða umönnunargreiðslur fyrir umönnun sjúkra og aldraðra í heimahúsi. Ég vil leiðrétta hæstv. ráðherra með að öryrkjar fái sömu greiðslur og ellilífeyrisþegar. Það er ekki rétt. Það eru hærri greiðslur til öryrkja, tekjutryggingin er hærri til þeirra en það er kannski ekki hægt að ætlast til þess að hæstv. ráðherra hafi fylgst með þeim breytingum sem gerðar hafa verið á almannatryggingunum frá því að hann var í heilbrrn.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Mun hann beita sér fyrir því í ríkisstjórninni að samþykkt verði breyting á þeirri grein, sem hann lagði til forðum, að greiddar verði umönnunarbætur eða umönnunarlaun til þeirra sem annast sjúka eða fatlaða heima, annarra en aðeins til maka eins og lögin eru í dag? Það er óbreytt frá því að hæstv. ráðherra var í heilbr.- og trmrn. Mun hann beita sér fyrir því hvernig sem það er, hann talaði hér um að hann hefði hugsað sér það þannig að það mundi ekki auka útgjöld almannatrygginganna. Hann hugðist spara annars staðar. Það kom reyndar ekki fram hvar hann hygðist spara en ég heyrði að hann var á því að greiða ætti þessi laun. Er hann tilbúinn að beita sér fyrir því í ríkisstjórninni og sýna þá að það er a.m.k. einhver hugur á bak við þetta málefni eða þessa þáltill. um fjölskyldustefnu sem hér er til umræðu?