Opinber fjölskyldustefna

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 23:47:19 (6198)

1997-05-12 23:47:19# 121. lþ. 122.25 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[23:47]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér er nú ekki annt um það velferðarkerfi sem hv. þm. vill koma á. Ég þekki mætavel hugmyndir hans en það má þó segja hv. þm. til hróss að ræða hans einkennist af því sem segir í hinni helgu bók, hún er já já og nei nei. Menn ganga ekkert gruflandi að skoðunum hv. þm. Ég er einfaldlega á móti þeim.

Ég tel að það velferðarkerfi sem hann vill koma upp sé frekar velferðarkerfi hinna ríku og það hefur Sjálfstfl. sýnt í störfum sínum hér. En til þess að öllu sé til haga haldið, þá er það auðvitað rétt hjá hv. þm. að hann hefur sýnt þessum málum áhuga og hann hefur setið yfir þessari umræðu. Það er rétt að það komi fram.

En af því að hv. þm. er stöðugt að tala um að komin sé ný tækni og það sé bara ágætt fyrir þingmenn að sitja fyrir framan sjónvarpið, þá spyr ég hv. þm.: Af hverju er hann að erindast hér í salnum í kvöld? Af hverju situr hann ekki bara fyrir framan sjónvarpið á sinni skrifstofu og tuðar við það?