1997-05-13 00:02:25# 121. lþ. 122.19 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[24:02]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. beindi til mín fimm spurningum við þessa 3. umr. um þetta mál. Í fyrsta lagi spurði hv. þm. um fjölda bankaráðsmanna. Ég lýsi minni skoðun í því. Ég tel að það sé eðlilegt að bankaráðsmenn í þessum nýju hlutafélögum verði fimm í hvorum banka. Það verður hins vegar hlutverk þeirrar nefndar sem skipuð verður samkvæmt 2. gr. frv. að gera samþykktir eða útbúa samþykktir fyrir þessi hlutafélög og það er eðlilegt að fjöldi stjórnarmanna eða bankaráðsmanna komi fram í þeim samþykktum. Þær starfa í umboði viðskrh. og það er skoðun mín að það eigi að vera fimm menn í stjórn viðkomandi hlutafélaga.

Varðandi fjölda bankastjóra, þá verður það hlutverk nýrra stjórna viðkomandi hlutafélaga viðkomandi banka að taka ákvörðun um það hversu marga stjórnendur þeir telja nauðsynlegt að hafa við bankana.

Í þriðja lagi spurði hv. þm. hver launakjör bankastjóranna yrðu og hvort gerð yrði breyting á þeim. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að ég tel það vera eðlilegt að laun bankastjóra séu ein laun. Hver þau eigi að vera treysti ég mér ekki til að segja á þessari stundu en inni í þeim launum eiga að vera allar þær greiðslur sem bankastjórarnir eiga að fá fyrir sitt starf. Ég hef lýst því að ég tel óeðlilegt að verið sé að greiða sérstaklega fyrir setu í stjórnum, nefndum og ráðum sem þeir sitja í þannig að ég tel að um ein laun eigi að vera að ræða fyrir þeirra störf.

Varðandi hagsmunatengslin þá tel ég það ekki vera hlutverk ráðherra að óska eftir því við Samkeppnisstofnun að þau séu könnuð. Ég tel að sú ósk eigi að koma frá þeim aðilum sem telja að samkeppnisaðstæður sínar séu skekktar ef um slík hagsmunatengsl er að ræða. Samkeppnisstofnun er sjálfstæð stofnun. Samkeppnisráð er líka sjálfstætt ráð sem leggur mat sitt á slíka hluti og ég hef áður lýst því að ég tel að ráðherra eigi ekki að skipta sér af ákvörðunum ráðsins í þessum efnum.