1997-05-13 00:06:50# 121. lþ. 122.19 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[24:06]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það verður hlutverk þeirra nefnda samkvæmt 2. gr. frv. að koma saman samþykktum fyrir þessi nýju hlutafélög. Það verður ekki verkefni þessara nefnda að ákveða hver launakjör bankastjóranna munu verða og heldur ekki að taka ákvörðun um hversu margir bankastjórarnir munu verða. Það munu stjórnir hlutafélaganna gera í framhaldi af því þegar stofnsamningur hefur verið gerður, sótt hefur verið um starfsleyfi fyrir viðkomandi stofnanir og samþykktir samþykktar á stofnfundi. Þá verður valin stjórn fyrir þessi nýju hlutafélög, stjórn sem kallast bankaráð samkvæmt lögunum um viðskiptabanka og sparisjóði, sem ég hef lýst að eigi að vera fimm manna. Það verður hlutverk þessarar stjórnar að taka ákvarðanir sem við vorum að ræða hér um áðan sem snýr að launakjörum og fjölda bankastjóra. (Gripið fram í.) Það hlýtur að verða í valdi stjórna viðkomandi stofnana eða félaga sem eiga að bera ábyrgð á rekstri bankanna að meta hvað henti því stjórnskipulagi best sem stjórnin ætlar að koma upp í viðkomandi hlutafélagi þannig að um sem bestan árangur verði að ræða í rekstri fyrirtækjanna og það skili eigendum sínum sem mestum arði og geti veitt sem ódýrasta og besta þjónustu.

Einu atriði gleymdi ég sem hv. þm. minntist á og snýr að starfsfólki þessara stofnana núna. Það er ekki rétt sem fram kom að ekki hafi verið haft samráð við starfsmennina um þennan undirbúning. Það var haft mjög víðtækt samstarf og samráð við starfsmennina við undirbúning að þessari formbreytingu, ánægjulegt samstarf. M.a. að ósk starfsmannanna var gerð athugasemd við frv. eins og það lá fyrir að gengið yrði út frá því að hlutafé yrði aukið þannig að samanlagður eignarhlutur annarra en ríkisins yrði 49% eins og frv. lá fyrir. Þetta fannst starfsmönnum m.a. of hátt og bentu á að hafa þetta lægra. (Forseti hringir.) Að þeirra ósk var þetta lækkað niður í 35% þannig að starfsmenn voru hafðir með í ráðum. Og ég hef áður lýst því yfir að ég tel að starfsmennirnir munu líka fá að fylgjast með því starfi sem fram fer í þeirri nefnd sem skipuð verður samkvæmt 2. gr. frv. En ég taldi og lýsti því við 2. umr. að ekki væri eðlilegt að það yrði lögbundið að þeir ættu sæti í nefndinni frekar en nokkur annar aðili.