1997-05-13 00:09:49# 121. lþ. 122.19 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., MF
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[24:09]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Mér gafst ekki færi á að taka til máls um frv. til laga um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands við 2. umr. og fyrir þá afgreiðslu né taka þátt í afgreiðslu þeirra brtt. sem þá voru lagðar fram. Þess vegna vildi ég um leið og ég mæli fyrir brtt. sem við hv. þm. Svavar Gestsson flytjum á þskj. 1179 fá að segja örfá orð um bankana og það frv. sem hér er til umræðu, en við flytjum brtt. hér sem eru í tveimur liðum.

Í fyrsta lagi leggjum við til breytingar á 9. gr. frv. um að aðeins einn bankastjóri verði við hvorn banka í stað þriggja eins og nú er í bankastjórn bankanna og við leggjum til að 9. gr. orðist svo, með leyfi forseta:

,,Einn bankastjóri skal starfa við hvorn hlutafélagsbanka fyrir sig. Um ráðningu og starfskjör bankastjóra, staðgengla bankastjóra, forstöðumanns endurskoðunardeildar og eftir atvikum aðstoðarbankastjóra Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. skal að öðru leyti fara samkvæmt ákvæðum laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, sbr. ákvæði laga nr. 2/1995, um hlutafélög.``

Í öðru lagi leggjum við til að við frv. bætist svohljóðandi ákvæði til bráðabirgða:

,,Strax við gildistöku laga þessara skal ráðherra hlutast til um að hafist verði handa við að undirbúa sameiningu hlutafélagsbankanna tveggja þannig að slíkri sameiningu verði lokið innan fjögurra ára.``

Þátttaka ríkisins í rekstri bankastofnana á rætur að rekja til allt annarra aðstæðna en nú gilda á fjármagnsmarkaði. Ríkið var lengi vel eini aðilinn sem gat staðið undir rekstri öflugra banka og miðast rekstur þeirra að miklu leyti við þarfir tveggja atvinnugreina umfram aðrar, þ.e. útgerðar og fiskvinnslu annars vegar og landbúnaðar hins vegar. Bankakerfið ásamt hinum mörgu lánasjóðum sem hver um sig var og er tengdur sérstakri atvinnugrein og helgaður sérverkefnum er arfleifð frá þjóðfélagsháttum og efnahagskerfi sem í grófum dráttum heyra til liðnum tíma. Þarfir nútímaatvinnulífs, aukin alþjóðleg samkeppni, gerbreyttir starfshættir og ný viðhorf í peningamálum kalla á allt annað skipulag á banka- og sjóðakerfi landsins.

Hlutverk bankanna eins og við höfum þekkt það hefur breyst verulega og að hluta til hafa stjórnir bankanna reynt að bregðast við þessu breytta hlutverki, m.a. ákvörðun stjórnenda Landsbankans um að taka þátt í tryggingaviðskiptum. Alþb. hefur margoft á undanförnum árum vakið athygli á þessum breytingum og að þær kalli á uppstokkun í íslenska banka- og sjóðakerfinu ef íslenskar lánastofnanir eiga að þjóna framþróun atvinnulífs á nútímalegan hátt. Núverandi skipan bankasjóðakerfisins er miðuð við þessa atvinnugreinaskiptingu sem á alls ekki lengur við og afleiðingin hefur m.a. verið sú að margar nýjar vaxtargreinar í atvinnulífinu hafa átt erfitt með að mynda eðlileg tengsl við peningastofnanir landsins og fá hjá þeim raunhæfa þjónustu. Þetta eru staðreyndir sem Alþb. hefur vakið athygli á og lagt fram tillögur til breytingar, róttækar tillögur um uppstokkun á öllu sjóðakerfinu og bankakerfinu í heild. Við höfum m.a. lagt til að báðir ríkisbankarnir verði sameinaðir í einn öflugan ríkisbanka og að sjóðirnir verði lagðir niður í þeirri mynd sem þeir nú eru og teknir inn í þennan eina ríkisbanka sem væri þá starfræktur.

[24:15]

Það verður hins vegar að segja að í þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru á rekstri ríkisbankanna tveggja og áformum um stofnun sérstaks fjárfestingarbanka atvinnulífsins er ekki tekið á þeim vandamálum sem ég nefndi hér áðan. Til þess að bregðast við þessum breytingum með róttækum hætti hefði verið mun eðlilegra að fram færi uppstokkun og fjárfestingarlánasjóðirnir sem hafa verið starfandi yrðu felldir inn í bankann án skilyrða um sérstaka aðild þeirra eða áhrif á útlán þeirrar stofnunar. Þetta væri gert fyrst og fremst til þess að tryggja nýjum vaxtargreinum í atvinnulífinu eðlilegan aðgang að lánsfé og þá fyrst og fremst áhættulánsfé vegna þess að þær kvartanir sem við höfum aðallega fengið frá þeim sem nú hafa verið að reyna að koma nýjum atvinnugreinum af stað eru um hversu erfitt er að fá lánsfjármagn. Þær tillögur og þau frumvörp sem hér eru og ríkisstjórnin hefur lagt fram breyta í raun mjög litlu þar um.

Þingflokkur Alþb. og óháðra hefur tekið þá afstöðu að styðja hinn nýja Fjárfestingarbanka atvinnulífsins vegna þess að við teljum að þar sé þó um spor í rétta átt að ræða og viljinn og markmiðin fara nálægt þeirri stefnu sem Alþb. hafði boðað. Hins vegar er ekki nógu langt gengið í þessum efnum og eins og ég sagði hefðum við viljað sjá þarna mun róttækari breytingu og einn ríkisbanka. Og við erum að leggja til að hafinn verði undirbúningur að því að hann verði stofnaður strax eftir að þetta frv. hefur fengið afgreiðslu hér á þinginu. Miðað við undirtektirnar eftir 2. umr. má fastlega reikna með því að frumvörpin verði afgreidd og þess vegna erum við með þá brtt. að inn komi bráðabirgðaákvæði þar sem kveðið er á um að hæstv. ráðherra hlutist til um að strax verði hafist handa við að undirbúa sameiningu hlutafélagsbankanna tveggja og að þeirri sameiningu verði lokið innan fjögurra ára. Það hefur ítrekað verið sýnt fram á að slík sameining fæli í sér verulega hagræðingu, langt umfram þá hagræðingu sem fæst með þeim tillögum sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fram.

Jafnframt reiknum við með því að hæstv. ráðherra skoði hvernig sá nýi ríkisbanki sem er verið að stofna gæti komið inn í þessa sameiningu og inn í þennan banka. Slíkur banki gæti reynst afar góður bakhjarl fyrir allt atvinnulíf í landinu, ekki með sérstöðu einstakra atvinnugreina heldur fyrir allt atvinnulífið og þá ekki síst fyrir þá sem eru að fara af stað með nýjar atvinnugreinar, enda hefði hann mun meira eigið fé heldur en hvor ríkisbankanna fyrir sig hefur nú.

Þá höfum við lagt fram þá tillögu að aðeins einn bankastjóri starfi við hvorn hlutafélagsbanka fyrir sig. Hæstv. ráðherra upplýsti hér áðan að bankaráð sem skipað yrði fimm mönnum mundi ákveða hversu marga stjórnendur bankarnir þyrftu hvor um sig og ráðherra hefði ekki í raun um það að segja. Í ljósi þeirrar afgreiðslu sem átti sér stað í bankaráði Landsbankans, þar sem bankaráðið samþykkti nýtt skipurit fyrir bankann á fundi ráðsins á miðvikudag í sl. viku þar sem lagt var til að bankastjórar Landsbankans yrðu þrír, þá leggjum við þessa tillögu fram aftur þrátt fyrir það að tillaga svipaðs efnis hafi verið hér til umræðu við afgreiðslu málsins eftir 2. umr. Það er í sjálfu sér mjög einkennilegt að bankaráð Landsbankans skuli leggja slíkt ofurkapp á að samþykkja nýtt skipurit bankans aðeins sjö mánuðum áður en lög um breytingu bankans yfir í hlutafélag taka væntanlega gildi. Og ég vildi beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra: Hvaða þýðingu hefur þessi samþykkt varðandi ráðningu bankastjóra hjá nýjum bönkum eftir að breytingin hefur átt sér stað? Felur hún í sér einhverja tryggingu þeirra bankastjóra sem nú starfa hjá Landsbankanum til þess að halda störfunum áfram eða er þetta trygging þess að semja þurfi við þessa bankastjóra um sérstök starfslok og tryggja þeim laun út ráðningartímann?

Það er tiltölulega stutt síðan einn bankastjóri Landsbankans var ráðinn til fimm ára. Þá lá fyrir tillaga frá einum fulltrúa í bankaráðinu, fulltrúa Alþb., Jóhanni Ársælssyni, þess efnis að viðkomandi bankastjóri yrði aðeins ráðinn til eins árs vegna þess að til stæði að breyta bankanum í hlutafélag. Sú tillaga var felld í bankaráðinu og bankastjórinn ráðinn til fimm ára. Það vakti ekki síður undrun mína en þessi afgreiðsla bankaráðsins á nýju skipuriti sem samþykkt var um daginn og gerði ráð fyrir þremur bankastjórum, ekki síst í ljósi þeirrar umræðu sem hefur átt sér stað að undanförnu um fjölda bankastjóra og starfskjör þeirra. Þess vegna leggjum við til að Alþingi taki af skarið í þessum efnum og lýsi þeim vilja sínum að einungis verði einn bankastjóri starfandi hjá hvorum banka fyrir sig eftir að þessi lög hafa tekið gildi.

Við höfum lengi talað um að það þyrfti að spara verulega í rekstrarkostnaði bankanna og reyndar hefur verið sýnt fram á að rekstrarkostnaður banka hér á landi er mun hærri heldur en gerist og gengur í flestum öðrum löndum sem við berum okkur saman við. Hluti af því er að við rekum tvo ríkisbanka sem í dag byggir nánast á fornum hefðum, þeim viðhorfum sem giltu þegar þessir bankar voru settir á laggirnar en þurfa nauðsynlega að breytast í takt við tímann. Og hluti af því og pólitískri samtryggingu er þessi fjöldi bankastjóra. Viðskiptamenn bankanna greiða fyrir þessa óráðsíu með allt of háum vöxtum og allt of miklum vaxtamun. Frv. ríkisstjórnarinnar um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands og Fjárfestingarbanka atvinnulífsins fela mjög litla hagræðingu í sér og miðað við að í yfirstjórn yrði óbreyttur fjöldi og jafndýrt að reka alla þessa banka, þarna bætist í raun einn við, þá getur þetta varla falið í sér þá hagræðingu sem við vildum sjá eða sparnað í þessum rekstri. En fyrst og fremst, þó að það sé auðvitað markmið í sjálfu sér að ná fram hagræðingu í rekstri bankanna, þá er það ekkert síður markmið að bankastarfsemi á landinu verði færð meira að nútímanum, að þær breytingar sem gerðar eru á banka- og sjóðakerfinu séu meira í takt við þann raunveruleika sem við búum við í dag. Tillögur ríkisstjórnarinnar eru í raun ekki nema að verulega litlu leyti í þá átt og eru nánast eingöngu um að breyta bönkunum í hlutafélög. Það er í raun og veru eina skrefið sem stigið er og það er frekar smátt.

Alþb. hefur lagt fram tillögur um raunverulega uppstokkun og við gerum hér tillögu um að ríkisstjórnin feti þá leið sem við höfum lagt til.

Varðandi muninn á tillögunni sem við flytjum á þskj. 1179 og svo aftur tillögu sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir mælti fyrir áðan, sem er á þskj. 1136 og fjallar fyrst og fremst um starfskjör, þá er hann sá að við leggjum til að farið sé að svipuðum reglum og gilda í dag en hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og meðflutningsmenn hennar tveir leggja til að starfskjör séu miðuð við laun og starfskjör stjórnenda ríkisstofnana sem kjaranefnd ákveður. Þau launakjör sem eru hjá bankastjórum í dag eru að sjálfsögðu að hluta til á ábyrgð Alþingis. Stjórnmálaflokkarnir hafa kosið í bankaráð sem hafa tekið þessar ákvarðanir. Það er því meira og minna á ábyrgð allra stjórnmálaflokka sem hér eiga fulltrúa hvernig þessum kjörum er háttað í dag.

Við höfum ítrekað lýst því yfir í umræðum á undanförnum vikum að þessum starfskjörum þurfi að breyta, þau séu óraunhæf og allt of há. Ég tel eðlilegt að þau skilaboð sem komið hafa frá Alþingi til hæstv. ráðherra og til bankaráðanna séu tekin til greina en að e.t.v. þurfi ekki að setja um það sérstakar reglur að öðru leyti.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að tefja þessa umræðu umfram það sem ég hef þegar gert. Ég sakna þess nú að virðulegur forseti, sem ævinlega tók til máls um kl. 12 þegar hann var í stjórnarandstöðu og minnti þingmenn og þá starfandi hæstv. forseta á að nú væri komin nótt, skuli ekki viðhalda þessari hefð sinni sem var ósköp notaleg og ýtti stundum allrækilega við mönnum að fara nú að ljúka og koma sér heim til þess að hvílast og halda a.m.k. sæmilegri starfsorku. En ég vonast til þess að þær tillögur sem ég hef mælt fyrir hljóti samþykki þingsins og hef lokið máli mínu.

(Forseti (GÁ): Vegna síðustu ummæla hv. þm. vill forseti taka fram að nú stendur þannig á að samkomulag er um að ljúka þessari dagskrá, þannig að forseti gerir ekki athugasemd við það þó að fundurinn gangi eitthvað fram í nóttina.)