1997-05-13 00:27:48# 121. lþ. 122.19 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[24:27]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil sérstaklega þakka fyrir áhuga hv. þm. á hagræðingu í bankakerfinu sem kom fram í ræðu hennar. Ég vil aðeins í þessu sambandi rifja það upp að á fundum í kjördæminu fer ég gjarnan yfir það hvað margir bankar og útibú þeirra starfi í kjördæminu og hversu margir vinni við að flytja peninga frá þeim sem eiga þá til þeirra sem eru að taka þá að láni. Það má rifja upp að það eru tvær bankastofnanir á Siglufirði, ein á Hofsósi, ein í Hólahreppi, tvær á Sauðárkróki, ein í Varmahlíð, tvær eða jafnvel þrjár á Skagaströnd, tvær á Blönduósi, ein á Hvammstanga og það vinna eitthvað á annað hundrað manns í þessu litla kjördæmi við að flytja þessa peninga á milli.

Í ljósi þess að ég hef stundum haldið þessa ræðu, þá er ég minntur á að ef ætti nú að fara að hagræða mikið þarna mundu ýmsir missa atvinnu sína. Og ég vil spyrja hv. þm. í framhaldi af þessu hvort hún teldi að það væri líklegra til árangurs að ná fram þeim breytingum sem er þó verið að gera undir því merki að segja upp svo og svo mörgum strax í kjölfarið eða hvort hún telur að það sé ekki affarasælla að starfsmannamál bankanna þróist með eðlilegum hætti með samkeppni þeirra í millum á næstu árum og að ekki sé verið að blanda því akkúrat saman núna.