1997-05-13 00:51:18# 121. lþ. 122.20 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.# frv., Frsm. 3. minni hluta ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[24:51]

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Út af síðustu orðum hv. þm. Vilhjálms Egilssonar um að til stæði að selja 49% af Fjárfestingarbankanum, sem er alveg laukrétt, vil ég að það komi skýrt fram að við gengum mjög eftir því í nefndarstarfinu með hvaða hætti ætti að standa að þessari sölu því að við höfum lagt mikið upp úr dreifðri eignaraðild þegar ríkið selur hluta eða jafnvel meiri hluta. Hér er þó einungis um hluta að ræða. Það fengust engin svör við því. Það er engin áætlun til um dreifða eignaraðild við þessa sölu. Við kölluðum fyrir einkavæðingarnefnd í tengslum við bæði breytingu á ríkisviðskiptabönkunum í hlutafélög, því að það á að bjóða út nýtt hlutafé og á að selja þar 35% af nýju hlutafé, og við spurðum: Hvar eru áætlanir um dreifða eignaraðild? Þær eru engar til. Það er því augljóst að viðskrh. og ríkisstjórnin ætlar að hafa það í hendi sér að selja vinveittum aðilum. Það eru fullar heimildir til þess í frumvörpunum. Það á bæði við frv. um ríkisviðskiptabankana og um fjárfestingarbanka. Þetta er ekki góð aðferðafræði, herra forseti, og ég sé ástæðu til þess, af því að það var nefnt hér að draga það sérstaklega fram við lokaumræðu málsins.