1997-05-13 00:55:31# 121. lþ. 122.20 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[24:55]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna þess að við 2. umr. um Fjárfestingarbankann vakti ég rækilega athygli á því að það stjórnkerfi sem þar er gert ráð fyrir er mjög sérkennilegt. Það er ekki um það að ræða að ríkisstjórninni hafi tekist að taka á skipulagsvanda þessara fjárfestingarlánasjóða sem hafa verið í landinu um nokkurt árabil, sumir um áratuga skeið, heldur hefur ríkisstjórnin gefist upp við það verkefni og búið til mjög sérkennilegt stjórnkerfi sem heyrir undir þrjá ráðherra. Í tilvikinu er það þannig að ráðherra ákveður hvernig á að fara með atkvæði ríkisins í þessum banka að fenginni tillögu ákveðinnar nefndar. Það er því bersýnilegt að hér er um fullkomið klúður að ræða.

Það er alveg ljóst að þessi banki verður stjórnkerfislegt vandræðabarn burt séð frá efni málsins að öðru leyti. Mér finnst nauðsynlegt að taka þetta fram einnig við 3. umr., herra forseti, vegna þess að ég hef ekki orðið var við það að stjórnarliðið hafi tekið eftir þeim ábendingum sem fram hafa komið um þetta mál sérstaklega. Ég spái því að þegar koma upp núningar á milli viðkomandi ráðuneyta, sem örugglega verða í þessu máli, þá muni menn sjá að það kerfi sem hér er verið að taka upp er algert vandræðakerfi.

Ég ætla síðan ekki að blanda mér í þessa umræðu að öðru leyti en því, herra forseti, að segja að ég harma að menn skuli ætla að leiða málið til lykta með þeim hætti sem hér er gert. Ég endurtek það sem ég sagði við 2. umr. málsins, og 1. umr. reyndar líka, að þessi fjárfestingarbanki er tímaskekkja. Það á ekki að stofna nýja ríkisbanka. Það er engin ástæða til þess og það er ótrúlegt að Sjálfstfl. skuli ganga svona hart fram í því að stofna hérna nýjan ríkisbanka. Ég er andvígur því, mér finnst það vitlaust.

Ég vil einnig segja í þessu samhengi, herra forseti, í tengslum við þessi bankamál öll að ég er alveg gáttaður á því að menn skulu kaupa þær röksemdir að betra sé fyrir þjóðina að bankaráð séu skipuð af einum pólitískum ráðherra. Ég hef tekið eftir því að menn í ólíklegustu flokkum, jafnvel bestu vinir mínir í þinginu í vissum stjórnmálaflokkum, styðja þessa endileysu. Þetta er fullkomlega ólýðræðislegt fyrirkomulag. Menn bera fyrir sig einhverja virkni í stjórnkerfinu og peningakerfinu og þess háttar. Ég gef ekkert fyrir það. Ég segi það alveg eins og er, herra forseti, að ég held að þau mál krefjist miklu meiri umræðu en hefur verið. Ég held að málið liggi ekki þannig að það sé eitthvað sjálfgefið að pólitískur ráðherra sé betri en allir aðrir og jafnvel Alþingi sjálft í því að velja stjórnir eða bankaráð. Það er dálítið umhugsunarefni að hæstv. núv. iðn.- og viðskrh. fer með hrikalega mikið vald í þessu efni. Hann er ekki aðeins með bankana, heldur einnig t.d. Landsvirkjun. Það er vald sem hann hefur farið illa með eins og kunnugt er og ég gæti nefnt fleiri dæmi í því sambandi. Ég held þess vegna að reynslan sýni að þetta er ekki skynsamlegt, a.m.k. er ekki hverjum sem er treystandi fyrir þessu valdi.

Þetta vildi ég láta koma hér fram, herra forseti, um leið og ég ítreka þá skoðun mína að ég tel að í frv. um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins sé fornöldin afturgengin í þessum sölum.