1997-05-13 00:59:49# 121. lþ. 122.21 fundur 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., Frsm. 3. minni hluta ÁE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[24:59]

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Mér þykir rétt að greina frá því við 3. umr. eins og ég gerði við hið fyrra mál sem við ræddum hér að í efh.- og viðskn. fjölluðum við um þetta mál milli 2. og 3. umr. Við fengum á fund okkar fulltrúa frá þeim hagsmunasamtökum sem eiga að tilnefna menn í stjórn Nýsköpunarsjóðsins. Það voru fulltrúar frá Samtökum iðnaðarins, Landssambandi ísl. útvegsmanna og Samtökum fiskvinnslustöðva.

Eins og þingheimi er kunnugt, þá er stjórnarfyrirkomulagið í Nýsköpunarsjóðnum dálítið sérkennilegt. Það er fimm manna stjórn. Einn er tilnefndur af Landssambandi ísl. útvegsmanna og Samtökum fiskvinnslustöðva. Einn er tilnefndur af Samtökum iðnaðarins og þriðji er tilnefndur af ASÍ. Þarna er kominn meiri hluti vinnuveitenda og verkalýðsfélaga á vinnumarkaði og síðan tilnefnir hvor ráðherrann einn mann, viðskrh. og sjútvrh. Einu ítarlegu ákvæðin í frv. eru reyndar um þessa stjórnarskipan.

En þetta var ekki tilefni þess að ég stóð hér upp, heldur fyrst og fremst það að við spurðum þessa aðila: Hvað með tillögur meiri hluta efh.- og viðskn. sem tóku einn milljarð út úr Fjárfestingarbankanum og settu inn í Nýsköpunarsjóðinn og eyrnamerktu hann til hátækniverkefna á landsbyggðinni og settu ákvæði um að það skyldi bjóða út vörslu þessa milljarðs, þ.e. þetta sem hefur verið kallað einkavædd byggðastefna sem er náttúrlega alveg fráleitt. Það er í sjálfu sér allt í lagi að reyna eitthvert nýtt form. En við spurðum þá sem eiga að stjórna sjóðnum. Þarna voru mætir menn eins og Kristján Ragnarsson, Arnar Sigurmundsson, Sveinn Hannesson og Haraldur Sumarliðason. Þetta eru sömu mennirnir og koma til með að sitja í stjórn Nýsköpunarsjóðs. Þeim fannst lítið til um þetta, þennan milljarð sem þarna væri tekinn út. Einn af gestum okkar sagði að ef það ætti nú að verða hátækni sem þetta ætti sérstaklega að fara í, þá mundi það ekki skapa mikla vinnu og fannst lítið til um þessa hugmyndafræði til styrkingar landsbyggðinni. En sú útfærsla að fela öðrum eða bjóða út vörslu á þessum milljarði, fannst þessum væntanlegu stjórnarmönnum einfaldlega ekki vera rétta aðferðin.

Ég tel rétt að þetta komi fram, herra forseti, vegna þess að það var dálítið skrýtin atburðarás þegar meiri hlutinn handjárnaði sitt lið með því að taka einn milljarð og eyrnamerkja hann tileknum stöðum á landsbyggðinni. Hv. formaður efh.- og viðskn., þingmaður Norðurl. v., náði ágætum árangri innan nefndarinnar þegar hann dúkkaði upp með þennan milljarð og ýmsir sem voru kannski ekki mjög svo hlynntir málinu sáu skyndilega ljósið þegar útfærsla um einn milljarð til viðbótar til landsbyggðarinnar kom á fram sjónarsviðið.

Nefndin klofnaði nú í eina fjóra hluta ef ég man rétt. Við jafnaðarmenn lýstum þeirri afstöðu okkar að við styddum vitaskuld nýsköpun og við styðjum raunhæfar aðgerðir til eflingar byggð úti um landið. Hins vegar var þetta upplegg ríkisstjórnarinnar mjög misráðið. Það hefði þurft að hugsa þetta miklu betur vegna þess að viðbótarlánveitingar til byggðamála eða nýsköpunar eru kannski ekki það sem þarf. Það þarf að fara miklu fyrr í nýsköpunarferilinn með sértækum aðgerðum.

Við kusum hins vegar við 2. umr. að lýsa yfir sérstökum stuðningi við þá hugsun sem felst í nýsköpun og stuðningi við byggð og greiddum atkvæði með 2. og 3. gr. frv. sem markaði umgjörð Nýsköpunarsjóðs. Hins vegar lögðum við til að málinu yrði vísað til ríkisstjórnar, sátum hjá við aðrar greinar frv. og munum sitja hjá við lokaafgreiðslu málsins. Þetta er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Vitaskuld fær Nýsköpunarsjóður frá mér hinar bestu óskir um hann megi ná fram að ganga og uppfylla þau markmið sem frumvarpshöfundar og þeir sem styðja þessa hugmyndafræði vonast eftir. Ég óska þess. Hins vegar hefði ég kosið og við lögðum til að það yrði farið öðruvísi að hvað varðar uppbyggingu á slíkum sjóði. En það skal þó ekki breyta óskum okkar jafnaðarmanna um að þetta nái nú vel fram að ganga og verði bæði landsbyggðinni og nýsköpun hér í landinu til framdráttar. Ég er býsna hræddur um að svo verði ekki og fyrr en síðar þurfi að taka þessa löggjöf upp og finna henni betri farveg. Það var samdóma álit þeirra sérfræðinga sem við leituðum til um þetta efni. En ég tel þó rétt, herra forseti, að afstaða þeirra sem eiga að stjórna sjóðnum til þessara brtt. og þessarar nýstárlegu útfærslu meiri hluta efh.- og viðskn. komi skýrt fram.