1997-05-13 01:06:55# 121. lþ. 122.21 fundur 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[25:06]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Við alþýðubandalagsmenn fluttum snemma á þessu þingi og því síðasta líka frv. um áhættulána- og nýsköpunarlánasjóð sem var vísað til iðnn. Það var náttúrlega ekki litið á það mál þar af stjórnarliðinu né heldur í efh.- og viðskn. að ég held. Það er nú ekki til siðs í þessari stjórn að líta á það sem kemur frá stjórnarandstöðunni. Hún þykir nú heldur svona slakur pappír, (Gripið fram í.) sérstaklega þegar stjórnarandstaðan gerir tilraunir til þess að styðja stjfrv. þá má segja að fyrst kasti tólfunum því að þá lamast stjórnarliðið eins og kom fram í lífeyrissjóðamálinu því að þá allt í einu ákvað stjórnarliðið að breyta sínu eigin frv. af því að stjórnarandstaðan studdi það. Það er athyglisvert og kannski er ástæða til þess fyrir stjórnarandstöðuna framvegis að leyna því ef hún styður stjfrv., að fara betur með það, segja ekki frá því. Það gæti þá orðið til þess að menn létu sig hafa það bara að styðja eigin frumvörp í ríkisstjórninni. (Gripið fram í: Ekki fyrr en við þriðju.) Já, við 3. umr. og þá í atkvæðaskýringunni í lokin þannig að þá verði ekki aftur snúið.

Um þetta frv. er það að segja að við alþýðubandalagsmenn fluttum við 2. umr. nokkrar brtt., m.a. um stjórnina. Við hefðum viljað hafa hana faglegar skipaða en hér er gert, stjórn þessa Nýsköpunarsjóðs. Við fluttum fleiri brtt. en þær voru felldar.

Við teljum líka að starfssvið sjóðsins eins og það er sé nokkuð þröngt, honum sé þröngur stakkur sniðinn að því er varðar raunveruleg áhættulán og hann sé rammaður óþarflega stíft inn. Það er okkar skoðun. Við teljum engu að síður að þetta sé betra en ekkert og höfum verið þeirrar skoðunar að engin ástæða væri til þess að tefja fyrir því að þetta mál færi í gegnum þingið þrátt fyrir þetta.

Það er auðvitað dálítið umhugsunarvert og ég hef orðið var við það hér í landi hvernig menn kasta til þúsund millj. Það hafa komið að máli við mig ýmsir ágætir kunningjar mínir og sagt: ,,Já, fannst allt í einu milljarður? Fannst bara milljarður?`` Og menn hafa sagt sem svo að það hefði kannski mátt hugsa sér að tryggja alveg eins mikla nýsköpun í atvinnulífinu með því að verja honum öðruvísi. Menn hafa bent á þann hátækniiðnað sem hér er að þróast og hefur gert það myndarlega og þarf í sjálfu sér ekki á neinum stuðningi að halda. Menn hafa bent á Háskóla Íslands í þessu samhengi líka sem er full ástæða til þess að nefna og velt því fyrir sér hvort hlutirnir séu þannig að þegar kemur að ýmsum verkefnum eins og t.d. á sviði menntamála eða annarra slíkra mála, þá velta menn fyrir sér litlu upphæðunum, milljónunum, þúsundköllunum. En svo þegar kemur að svona málum í efh.- og viðskn. þar sem nú er mikið lið eins og kunnugt er, þá sveifla menn þar yfir höfði sér einum milljarði bara rétt sisvona eins og ekkert sé sjálfsagðara. Einn góðan veðurdag er þessi sjóður kominn með milljarð í viðbót af því að í ljós kemur að hinn sjóðurinn var eiginlega of ríkur og þá er bara að skella sér í að snara þarna yfir einum milljarði. Þetta er náttúrlega alveg ótrúlegt. Og það er gott að það eru stórhuga menn sem koma að verkum í þessari stofnun þó að þeir þoli það ekki að stjórnarandstaðan styðji stjfrv. og eyðileggi eigin frumvörp ef þeir frétta af slíku.

Ég tel engu að síður að þrátt fyrir að finna megi á þessu galla, sé ástæða til þess að falla ekki í þá gryfju sem stjórnarliðið fellur í í málum af þessu tagi og taka því vel sem vel er gert og þess vegna er okkar afstaða sú sem ég hef hér lýst og ég lýsti reyndar einnig við 2. umr. málsins.