Vörugjald af ökutækjum

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 11:31:03 (6258)

1997-05-13 11:31:03# 121. lþ. 123.34 fundur 549. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (vöruflutningar) frv., Frsm. VE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[11:31]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. við frv. til laga um breytingu á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.

Þetta mál var flutt af þingmönnum úr meiri hluta efh.- og viðskn. en með þeirri breytingu sem á málinu hefur orðið stendur öll nefndin að því.

Það er gerð tillaga um að við bætist ákveðið ákvæði til bráðabirgða sem felst í því að greiða skuli skráðum eigendum ökutækja, sem eru yfir 5 tonn að heildarþyngd og nýskráð hafa verið á síðustu 12 mánuðum fyrir gildistöku laga þessara eða sem gjaldskyld aðvinnsla hefur verið framkvæmd á á sama tímabili, einn sjötta hluta þess vörugjalds sem greitt hefur verið af þeim sökum. Ef skráður eigandi er eignarleigufyrirtæki skal greiðsla þó bundin því skilyrði að henni verði ráðstafað til leigutaka bifreiðar. Ráðherra setur í reglugerð nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis, m.a. um skilyrði og fyrirkomulag endurgreiðslu.

Rökstuðningurinn fyrir þessu af hálfu nefndarinnar er sá að í kjölfar lækkunar á vörugjaldi á þessar bifreiðar úr 30% í 15% geti orðið nokkur röskun á verði, sérstaklega nýkeyptra bifreiða, og þess vegna rétt að koma til móts við þá sem hafa nýlega fest kaup á slíkum bifreiðum.