Erfðafjárskattur

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 11:40:10 (6264)

1997-05-13 11:40:10# 121. lþ. 123.37 fundur 517. mál: #A erfðafjárskattur# (niðurfelling hjá sambýlisfólki) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[11:40]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Sem 1. flm. málsins sé ég ástæðu til að lýsa sérstakri ánægju minni með meðferð félmn. á þessu máli og þakka henni fyrir hve fljótt og vel hún afgreiddi það.

Það er ljóst af afgreiðslu nefndarinnar að mjög breið og víðtæk samstaða er um málið. Það má líka vitna til þess að flm. frv. eru þingmenn úr öllum flokkum, stjórn og stjórnarandstöðu.

Ég held að hér sé á ferðinni mikið réttlætismál sem kostar ríkissjóð lítið. Hér er aðeins um heimildarákvæði að ræða og það er auðvitað mikið óréttlæti fólgið í því, eins og löggjöfin er nú, að af arfi sem fellur til þess hjóna sem lifir hitt skuli ekki greiða erfðafjárskatt en þegar um er að ræða sömu aðstæður hjá t.d. systkinum, mæðgum eða feðginum, þ.e. sama lögheimili og sameiginlegt heimilishald nær alla ævi, verður hins vegar að greiða erfðafjárskatt ef annar aðilinn í slíku sambýli fellur frá. Það er engin sanngirni í því að við slíkar aðstæður verði sá sem eftir lifir að greiða erfðafjárskatt til að geta búið áfram í húsnæði sem hefur verið heimili hans alla ævi.

Því, herra forseti, er full ástæða til þess að þakka hv. félmn. fyrir skjóta afgreiðslu á þessu máli og hve vel var að málinu staðið í umfjöllun nefndarinnar og vona ég að málið eigi greiða leið í gegnum þingið og verði að lögum.