Kosningar til Alþingis

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 11:50:15 (6272)

1997-05-13 11:50:15# 121. lþ. 123.38 fundur 116. mál: #A kosningar til Alþingis# (atkvæðagreiðsla erlendis) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[11:50]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér á Íslandi eru leynilegar kosningar. Menn greiða atkvæði án þess að nokkur sjái á þeirra atkvæðaseðil og þeir eiga rétt á því að þessi leynd sé varðveitt, en ekki bara þess vegna, það á líka að vera réttur einstaklings að ef hann vill ekki að um það sé vitað hvort hann yfirleitt tekur þátt í kosningunni eða ekki þá á hann að vera sjálfráður um það. Hér fyrr á árum höfðu flokkarnir þann hátt á að hafa fulltrúa sína inni á hverjum kjörstað og þeir skráðu niður alla þá sem komu á kjörstað til þess síðan að geta elt þá uppi ef því var að skipta. Nú í seinni tíð hafa flokkarnir flestir látið af þessari iðju. Sumir eflaust því þeir hafa ekki haft nægilegan mannafla en aðrir af virðingu fyrir persónuleyndinni, fyrir leynilegum kosningum. Einn flokkur hefur hins vegar haldið sínu striki og það er Sjálfstfl. Hann hefur fulltrúa sína á flestum kjörstöðum sem fylgjast með öllum sem koma á kjörstað og skrá skilmerkilega niður hverjir mæta. Og tillaga hv. þm. Svavars Gestssonar gekk út á það að gefa einstaklingnum, hverjum og einum kjósanda, rétt til þess að óska eftir því að þessi eftirlitsmaður Sjálfstfl. eða annarra flokka ef því er að skipta viki af kjörstað ef hann óskaði eftir því eða að því yrði haldið leyndu gagnvart þessum eftirlitsmanni Sjálfstfl. eða annarra flokka, að hann hefði greitt atkvæði.

Ég held að það sé alveg hárrétt sem hv. þm. Svavar Gestsson benti á að menn líta almennt á þetta sem sjálfsögð mannréttindi. Og ég er alveg sannfærður um að ef menn kysu hér í þessum sal, hv. Alþingi, og létu samviskuna ráða, þá væri mikill meiri hluti fyrir því að styðja þessa lagabreytingu og þessa tillögu hv. þm. Svavars Gestssonar. Ég er alveg sannfærður um það. Ég er líka sannfærður um að ef flokkarnir ættu að taka afstöðu til þessa þá mundu þeir allir samþykkja þetta nema einn, nema Sjálfstfl., --- nema Flokkurinn með stóra effinu. Þess vegna finnst mér það vanta núna í þessa umræðu að hinn stjórnarflokkurinn, sem ásamt Sjálfstfl. kom í veg fyrir að þetta mál yrði látið ganga til þingsins og fengi eðlilega afgreiðslu hér, kæmi hér og gerði grein fyrir sinni afstöðu til þessa máls og skýrði það fyrir okkur hvers vegna hann kemur í veg fyrir að málið fái eðlilega afgreiðslu í þinginu. Mér finnst við eiga þá kröfu á hendur Framsfl. og fulltrúum Framsfl. í allshn. sem ásamt Sjálfstfl. koma í veg fyrir að þetta mál hv. þm. Svavars Gestssonar fái eðlilega afgreiðslu í þinginu, að þessir fulltrúar komi hér í ræðustól og skýri okkur frá því hvers vegna hann styður Sjálfstfl. í að koma í veg fyrir eðlilega umfjöllun þingsins. Hvers vegna hann styður Sjálfstfl. í því að fulltrúar Flokksins með stóra effinu hafi heimild til þess lögum samkvæmt að ryðjast inn á kjörstaði og njósna um fólk. Í rauninni er það alveg fráleitt að þetta skuli ekki fá eðlilega afgreiðslu þingsins --- einfaldlega vegna þess að flokkshagsmunir Sjálfstfl. koma í veg fyrir það þá hlýðir Framsfl. Og nú hafa þeir allir hlaupið úr þingsal til að komast hjá því að skýra þinginu frá hvað veldur þessu, hvað veldur þessari fylgispekt við Flokkinn með stóra effinu. Í rauninni kann svo að virðast að hér sé smámál á ferðinni, lítið lagafrv. sem lítið hefur farið fyrir. Þetta er í rauninni stórmál. Og mér finnst það líka stórmál fyrir þingið að við fáum skýringar þingmanna á því hvers vegna þeir eru að stöðva þetta mál.

Stundum er hafður sá háttur á þegar mál eru hér til umfjöllunar að óska eftir því að ráðherrar komi í þingsal og greini þinginu frá afstöðu sinni. Mér finnst það stórt álitamál hvort ekki á að óska eftir því að fulltrúar Framsfl. í allshn. komi í þingsal og geri grein fyrir því hvers vegna þeir taka undir það með Sjálfstfl. að koma í veg fyrir að lagafrv. sem er til þess ætlað að styrkja mannréttindi hér fái eðlilega umfjöllun í þinginu. Og ég leyfi mér að mælast til þess við hæstv. forseta að fulltrúar Framsfl. í hv. allshn. komi í þingsal og geri þinginu grein fyrir þessari afstöðu sinni. Ég sætti mig ekki við að hægt sé að reisa hér þagnarmúra, að menn séu látnir tala hér út í tómið og fái ekki svör við rökstuddum spurningum. Ég leyfi mér að ítreka spurningu mína til hæstv. forseta, hvort ekki sé eðlilegt að hans mati að fulltrúar Framsfl. í allshn. komi hér og skýri Alþingi frá því hvers vegna þeir koma í veg fyrir að þetta frv. og þessar tillögur um lagabreytingar fái umfjöllun þingsins.

(Forseti (StB): Samkvæmt upplýsingum sem forseti hefur eru fjölmargir hv. þm. Framsfl. í húsinu og fylgjast vafalaust með umræðunum. Það er á þeirra valdi að óska eftir að taka til máls.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir þetta og ætla mönnum til upplýsinga svona á meðan við bíðum eftir því að fá fulltrúa Framsfl. í allshn. þingsins hingað í þingsal til að skýra þinginu frá afstöðu sinni til þessa máls að rifja það upp að við erum að tala um tillögu til lagabreytinga sem heimila einstaklingnum að óska eftir því að fulltrúar stjórnmálaflokka njósni ekki um þá á kjörstað. Um það snýst þetta mál. Og þetta mál hefur verið rökstutt hér í þinginu þegar það kom til 1. umr. og menn hafa almennt tekið vel í þessar hugmyndir, telja að þær séu til þess fallnar að treysta hér mannréttindi og frelsi einstaklingsins. En síðan ekki söguna meir. Síðan drukknar málið í nefnd og því er neitað að málið komi til umræðu í þingsal og fái eðlilega umfjöllun og afgreiðslu. Ef menn eru á móti þessum tillögum þá er ósköp einfalt að bregðast þannig við að greiða atkvæði gegn þeim, að fella þessar breytingar. Ég held að skýringin sé sú að menn vilji einfaldlega ekki að málið komi til slíkrar afgreiðslu, menn vilja ekki opinbera --- Framsfl. vill ekki opinbera fylgispekt sína við Sjálfstfl. sem hefur skipað svo fyrir, mælt svo fyrir, að málið fái ekki afgreiðslu á þinginu vegna þess að hann ætlar að halda sínum fulltrúum inni á kjörstað hvað sem tautar og raular. Hann ætlar að hafa vald til þess að hafa sína útsendara, sína njósnara á kjörstað til þess að greina flokksmaskínunni frá því hverjir hafa komið og greitt atkvæði og hverjir ekki.

[12:00]

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að standa hér í allan dag. Hæstv. forseti hefur upplýst að fjölmargir framsóknarmenn eru í húsinu. Þeir sjá ekki ástæðu til að koma og svara þessum spurningum og skýra okkur frá því hvers vegna þeir hafa tekið undir með Sjálfstfl. og stutt hann í því að kæfa þetta réttindamál. En mér finnst þetta vera umhugsunarefni fyrir okkur öll og mér finnst það líka vera umhugsunarefni fyrir Alþingi. Að menn skuli komast upp með það, að hv. þm. skuli komast upp með það í skjóli þagnarinnar að drepa þjóðþrifamál á borð við þetta.