Kosningar til Alþingis

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 12:15:05 (6276)

1997-05-13 12:15:05# 121. lþ. 123.38 fundur 116. mál: #A kosningar til Alþingis# (atkvæðagreiðsla erlendis) frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[12:15]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. 8. þm. Reykv. beinir til okkar fulltrúa Framsfl. í allshn. spurningu um af hverju við höfum gengið í skítverkin fyrir íhaldið ef ég dreg saman efnisinnihald ræðu hans. Ég ætla ekkert að orðlengja um það enda er þetta bara venjulegt pólitískt orðaskak sem ekki er ástæða til að taka alvarlega. Hins vegar vil ég taka nokkur atriði fram um vinnubrögð nefndarinnar.

Ég mótmæli því að allshn. hafi einhverja sérstöðu um það að taka ekki fyrir þingmannamál. Þingmannamál hafa verði tekin fyrir í nefndinni, m.a. þessi tvö kosningalagamál. Gott samkomulag var um það í nefndinni að senda málið varðandi kosningarétt erlendis til ríkisstjórnarinnar og menn voru sammála um að greiða þar fyrir því að menn gætu notað kosningarrétt sinn eftir föngum en treystu sér samt ekki til að afgreiða málið án frekari skoðunar. Um hitt málið var ekki samkomulag. Það, eins og svo mörg önnur mál, er ekki afgreitt frá nefnd. En hins vegar bendi ég á að það er að fara af stað endurskoðun á kosningalögum. Við höfum fengið það upplýst og er þá að sjálfsögðu tækifæri til þess að taka þau atriði til umræðu við þá endurskoðun jafnvel þó að ekki fylgi því neinn heimanmundur frá allshn. að þessu sinni. En að sjálfsögðu er þetta atriði sem þarf að skoða í þeirri endurskoðun sem verður innan tíðar og er að fara af stað. Ég efast ekki um að þessi atriði komi þar til umfjöllunar þó ekki fylgi nál. frá allshn. sem meðlag inn í þá umræðu.

Þetta vildi ég upplýsa vegna þeirrar umræðu sem hefur farið fram.