Áætlun um afnám ofbeldis gagnvart konum

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 12:40:33 (6287)

1997-05-13 12:40:33# 121. lþ. 123.39 fundur 403. mál: #A áætlun um afnám ofbeldis gagnvart konum# þál., KH
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[12:40]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Skýrsla hæstv. dómsmrh. um heimilisofbeldi kom fram fyrr á þessu ári og hafði að geyma margar og margvíslegar gagnlegar upplýsingar sem hljóta að vera okkur veganesti til framtíðar. Þingflokkur Kvennalistans brást þegar í stað við og lagði fram tillögu til þál. um stofnun nefndar sem í rauninni yrði nokkurs konar aðgerðarráð fulltrúa ráðuneyta og samtaka sem vinna að forvörnum og að aðstoð við þá sem verða fyrir ofbeldi. Nefndinni var ætlað að móta áætlun til fimm ára um aðgerðir gegn ofbeldi gagnvart konum og fylgja henni markvisst eftir.

Við umræður um skýrsluna kom fram mikill skilningur og jákvæð afstaða hæstv. dómsmrh. til þeirrar hugmyndar. Niðurstaða allshn. er að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar á þeirri forsendu að þegar sé unnið að þessum málum á vegum ríkisstjórnarinnar og því lýst nánar í nál. eins og kom fram í máli hv. formanns nefndarinnar, hv. 5. þm. Reykv., Sólveigar Pétursdóttur.

Hér er reyndar örlítið önnur útfærsla á ferðinni en við lögðum til en í trausti þess að haft verði samráð við þá aðila sem eru að vinna að þessum málum og að störf þeirra þriggja nefnda sem hæstv. dómsmrh. hyggst ýta úr vör leiði til verulegra úrbóta í þessum efnum erum við flytjendur þessa máls fyllilega sáttar við afgreiðslu þess eins og hv. allshn. leggur til og þökkum nefndinni fyrir afgreiðslu málsins.