Rekstur Fríhafnarinnar í Leifsstöð

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 13:50:39 (6300)

1997-05-13 13:50:39# 121. lþ. 123.95 fundur 329#B rekstur Fríhafnarinnar í Leifsstöð# (umræður utan dagskrár), KH
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[13:50]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Sú var nú tíðin að Flugstöð Leifs Eiríkssonar var oft og mikið til umræðu hér í þingsölum. Mönnum sýndist sitt hverjum um þá framkvæmd sem var keyrð áfram af lítilli fyrirhyggju og þau vinnubrögð sem voru viðhöfð í því efni, flýtiframkvæmdir og andvaraleysi um þróun kostnaðar leiddu til þess að hún fór gjörsamlega úr böndum. Það er ástæðan fyrir þeim skuldastabba sem við er að fást í sambandi við rekstur flugstöðvarinnar. Þeir sem ráku þetta mál áfram og báru ábyrgð á framkvæmd þess reistu þjóðinni einfaldlega hurðarás um öxl. Nú á þessu ári 1997, 10 árum eftir vígslu flugstöðvarinnar, nema vextir og afborganir af lánum vegna byggingar hennar um 1,5 milljörðum kr. Það munar um minna í ríkisbúskapnum. Rekstur flugstöðvarinnar stendur auðvitað hvergi nærri undir þessum útgjöldum þrátt fyrir tekjur sem nema hundruðum milljóna á ári hverju. Í þessari stöðu er í hæsta máta eðlilegt að leita allra leiða til að afla aukinna tekna og það var og er hlutverk þeirrar nefndar sem nú hefur skilað því áliti til bráðabirgða, ef ég skil rétt, sem hér er til umræðu.

Ég ætla ekki að dæma hér og nú um niðurstöður þessarar nefndar. Í dagsins önn hefur einfaldlega ekki gefist tóm til að kynna sér þær til hlítar. En ég þakka hv. málshefjanda fyrir að taka þetta mál upp og tek undir flest af hans gagnrýnisatriðum. Þær leiðir sem nefndin bendir á eru engan veginn fullkannaðar og hliðarverkanir geta haft alvarleg áhrif, t.d. á stöðu íslensks ullariðnaðar. Við höfum enga tryggingu fyrir því að þeirra hagsmuna verði gætt af þeim sem hugsanlega tækju við verslanarekstri í Fríhöfninni.

Að lokum, herra forseti. Framkoma gagnvart starfsfólki í verslunum og annarri starfsemi Fríhafnarinnar er forkastanleg. Það getur hver litið í eigin barm og spurt sig hvort hann vildi fá það yfir sig í fjölmiðlum að starfi hans og lífsafkomu væri ógnað vegna óútfærðra hugmynda um breyttan rekstur. Þetta er sem hnefahögg í andlit þessa fólks og furðulegt, herra forseti, að í áliti nefndarinnar er ekki vikið einu orði að hugsanlegum afleiðingum þessara hugmynda á framtíð þessa fólks. Það er forkastanleg framkoma gagnvart þessu fólki sem svo sannarlega er uggandi um sinn hag, hvað svo sem líður orðum hæstv. utanrrh. áðan. Ég efast um að orð hans hafi slegið á þann ugg og ég vona að hann tali skýrar hér á eftir.