Rekstur Fríhafnarinnar í Leifsstöð

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 13:56:04 (6302)

1997-05-13 13:56:04# 121. lþ. 123.95 fundur 329#B rekstur Fríhafnarinnar í Leifsstöð# (umræður utan dagskrár), ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[13:56]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Sá sem hér talar er formaður þeirrar nefndar sem lagt hefur fram þær tillögur sem hér eru til umræðu. Margt heyrir maður í þingsölum, en mér gersamlega blöskrar hversu ómálefnalega og óvandað er hér efnt til þessarar umræðu. Sérstaklega vil ég láta það koma fram að ég sagði málshefjanda frá því þegar hann sagði mér frá utandagskrárumræðunni að hér væri um grundvallarmisskilning að og ég skyldi skýra það fyrir honum ef það mætti verða honum til einhverrar bjargar í þessari umræðu. Á það vildi hann ekki hlusta. (Gripið fram í.)

Staðreyndin er þessi: Starfsöryggi starfsfólks í Fríhöfninni samkvæmt þessum tillögum er tryggt svo við tökum allan vafa af um það.

Í öðru lagi Rekstrarskilyrði Fríhafnarinnar eru trygg. (GÁS: Hvernig?) Virðulegur þingmaður. Ég hef tvær mínútur. Má ég nota þær í friði? Fríhöfnin fær þær rekstraraðstæður að hún getur fyllilega skilað þeim tekjum sem ætlað er samkvæmt tillögum nefndarinnar. Það er alger misskilningur að eingöngu eigi að selja áfengi, tóbak og snyrtivörur heldur, eins og kom fram í máli hæstv. utanrrh., allar vörur að undanteknum 6--7%. Hitt á að bjóða út. Berlínarmúrinn er fallinn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Fólkið þar fær að vinna við eðlilegar aðstæður. Þar fær núna heilbrigt og gott rekstrarumhverfi að þróast í samræmi við gildandi lögmál í samfélaginu. Tekjur flugstöðvarinnar vaxa, atvinna mun vaxa þar með nýjum rekstri, flugstöðin og flugvöllurinn verða markaðssett á erlendum vettvangi. Þriðja komubandið verður sett upp þegar komuverslunin verður flutt af fyrstu hæðinni upp á aðra hæð, hún verður ekki lögð niður og þannig get ég haldið lengi áfram að telja. Hér er um algeran reginmisskilning. Ég verð að líta svo á að hv. málshefjandi hafi hafið þessa umræðu hér ekki af vanþekkingu heldur til þess að reyna að koma pólitísku höggi á utanrrh. sem er að vinna tímamótaverk eins og komið hefur fram, tímamótaverk í því að bjarga þessu fyrirtæki sem hefur verið svipt tekjum sínum upp á 1,7 milljarða það sem það nær, svipt tekjum sínum og verið mönnum bitbein. Nú er þessi martröð liðin og betri tímar fram undan.