Rekstur Fríhafnarinnar í Leifsstöð

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 13:58:46 (6303)

1997-05-13 13:58:46# 121. lþ. 123.95 fundur 329#B rekstur Fríhafnarinnar í Leifsstöð# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[13:58]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Alltaf öðru hverju koma fram tillögur á Alþingi um að uppstokkun verði gerð á rekstri Fríhafnarinnar í Keflavík. Er það vegna þess að reksturinn þar sé mjög slæmur? Nei, engin slík rök hafa verið sett fram. Reksturinn skilar 750 millj. kr. á ári í ríkissjóð. Er það vegna þess að veltuaukningin hafi ekki verið nægilega mikil? Nei. Á milli áranna 1995 og 1996 var veltuaukning 18% og ætlað að veltuaukning milli 1996 og 1997 verði 20%. Hvað veldur þessu þá?

Það er einmitt þetta. Það er velgengnin. Og af velgengni er peningalykt og Verslunarráðið finnur peningalykt. Verslunarráðið gerir þess vegna kröfu (Gripið fram í: Fornöld.) Fornöld, segir fulltrúi Framsfl. hér. Þegar Verslunarráðið gerir kröfu til hans fer hann að þeirra skipun um að einkaaðilum, að milliliðum, í Fríhöfninni verði fjölgað. Þeir eiga að greiða leigu til ríkissjóðs er sagt og þeir eiga að greiða tekjuskatt. Núna er greidd leiga í ríkissjóð, 100 millj. En núna fer ekki bara tekjuskattur til ríkissjóðs. Nú fer allur arðurinn til ríkissjóðs. Og það er ofan í þessa gullkistu sem Verslunarráðið ætlar að komast. Hæstv. utanrrh. spyr hvort menn séu svo uppteknir af opinberum rekstri. Já, þar sem hann á við, eins og t.d. við vopnaleit. Núna gerir hans fulltrúi, fulltrúi Framsfl., kröfu um það að vopnaleitin verði boðin út og ég spyr: Er það bandalag þessara tveggja ráðherra sem hér sitja, dómsmrh. og utanrrh., fulltrúa Sjálfstfl. og Framsfl., um að Securitas fái vopnaleitina í sínar hendur? Þetta eru forkastanleg vinnubrögð. Ef ég er að lýsa fornaldarsjónarmiðum, þá veit ég ekki á hvaða öld Framsfl. lifir og hvert hann eiginlega ætlar að halda.