Rekstur Fríhafnarinnar í Leifsstöð

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 14:08:59 (6307)

1997-05-13 14:08:59# 121. lþ. 123.95 fundur 329#B rekstur Fríhafnarinnar í Leifsstöð# (umræður utan dagskrár), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[14:08]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Alþfl. fór með utanríkismál í ein sjö ár og ég hef ekki orðið var við tillögur Alþfl. til úrbóta í þessu máli. Menn tala um að það sé undarlegt að viðkomandi ráðherra sé reiður út af því hvernig frummælandi hóf mál sitt. Ég átti von á einhverjum málefnalegum umræðum. Í stað þess er komið hér og fullyrt að í beinni útsendingu hafi verið sagt upp 50--60 manns og þar að auki sennilega 50 manns í iðnaði á Íslandi. Þannig er málflutningur á Alþingi. Þetta er alrangt. Væri líklegt að það ætti að fara að segja upp 50--60 manns í Fríhöfninni þegar verið er að tryggja að þessi vinnustaður fái meira pláss í Leifsstöð? Hvaða samhengi er þar á milli? Þetta er allt saman tómt rugl og auðvitað átti þingmaðurinn að gera sér grein fyrir því. Það er það alvarlega í þessu máli. Það er rétt.

Hér er verið að tryggja stöðu Fríhafnarinnar. Það er verið að eyða þeirri óvissu sem hefur verið í umræðu lengi hvort ekki sé rétt að bjóða út rekstur Fríhafnarinnar. Það hafa verið margar tillögur um það. Hér er tekin afstaða til þess að það verði ekki gert. En það er jafnframt tekin afstaða til þess að nýta það húsnæði sem þarna er fyrir hendi. Eru menn á móti því? Það getur vel verið að menn vilji að Fríhöfnin fái það líka. Nefndin var ekki þeirrar skoðunar og ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég tel rétt að koma að samkeppni um rými inni í þessari byggingu og feta sig varlega áfram í þeim efnum. Og ég sagði hér áðan að tillögur nefndarinnar gera ráð fyrir því að 5--7% af þeim vöruflokkum og þeirri veltu sem Fríhöfnin hefur verði flutt til annarra, en jafnframt 5--7% ... (Gripið fram í.) Er þingmaðurinn heyrnarlaus? (GÁS: Ég hef aflað þessara upplýsinga sjálfur. Það er best að ráðherrann geri það líka.) Ég held að það væri rétt að hv. þm. talaði við rétta aðila. Ef hann hefur talað við verslunarstjórann sem kom í sjónvarpið og ræddi þessi mál án þess að hafa nokkrar upplýsingar um málið, þá er ekki nema von að hann komist að þeirri niðurstöðu. En hann byggði því miður ekki á réttum forsendum. (GÁS: En Securitas?)