Þjóðminjalög

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 14:20:42 (6313)

1997-05-13 14:20:42# 121. lþ. 123.43 fundur 502. mál: #A þjóðminjalög# (stjórnskipulag o.fl.) frv., StB
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[14:20]

Sturla Böðvarsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. menntmn. ágæta vinnu við það að yfirfara það frv. sem hér er til meðferðar, en ég vildi aðeins eyða hér nokkrum orðum í þetta mál vegna þess að ég þekki allvel bakgrunn þess og þær skipulagsbreytingar sem verið er að gera á Þjóðminjasafninu og skipulagi þjóðminjavörslunnar í landinu.

Á vegum Þjóðminjasafnsins hófst vinna við það að móta stefnu eins og lög gera ráð fyrir varðandi þjóðminjavörsluna í landinu. Þjóðminjaráði er sett það lögum samkvæmt að vinna að því verki og til voru kallaðir starfsmenn Þjóðminjasafnsins og lektor frá háskólanum, sérfræðingur í stefnumótunarvinnu, fenginn til þess að stýra þessari vinnu eða móta stefnu fyrir Þjóðminjasafnið og þjóðminjavörsluna. Að því hefur verið unnið og það verk var kynnt nú í haust á sérstökum fundi og sent út til umsagnar til byggðasafnanna og til þeirra félaga, fornleifafræðinga og annarra, sem að þessum málum koma. Það verk er enn í gangi og er að mestu lokið. Hins vegar var síðan skipulagsbreytingin á Þjóðminjasafninu sjálfu og það er um það atriði sem við erum að fjalla um og gera breytingar á þjóðminjalögunum. Hvers vegna? Jú, það er til þess að auðvelda skipulagsbreytingar. Samkvæmt lögunum er deildaskipting og verkaskipti í föstum skorðum en með frv. er gerð á breyting þannig að þjóðminjaráð getur gert breytingarar á skipulagi safnsins án þess að að þurfi gera breytingar á lögunum.

Í þriðja lagi er unnið að því, eins og kom fram hjá hv. 3. þm. Reykn., frsm. menntmn., að setja nýja reglugerð á grundvelli breyttra laga en reglugerðin var orðin úrelt. Þetta á sér þennan aðdraganda og ég tel í fyllsta máta eðlilegt að gera þessar breytingar.

Þá vil ég koma að því sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson nefndi, að hann óttaðist að þessum breytingum kynni að vera stefnt gegn byggðasöfnunum úti á landi. Ég tel afar mikilvægt að hér komi fram sú afstaða mín að ég tel alveg af og frá að þessar breytingar skerði eða gangi gegn hagsmunum byggðasafnanna í landinu, öðru nær. Stefnumótunarverkið og sú skipulagsbreyting sem verið er að gera á Þjóðminjasafninu er til þess að gera þetta starf virkara. Hins vegar verður að viðurkennast að það hefur ekki alltaf verið mjög mikill friður á þeim vettvangi þar sem eru fornleifafræðingar og hefur stundum keyrt um þverbak.

Sá boðskapur sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson færði inn í umræðuna er endurómur af þeim deilum, því miður. Það verður að segjast eins og er. Og ég tel að það sé ekki löggjöf um þjóðminjavörsluna til framdráttar að færa þær deilur fornleifafræðinganna hingað inn í sali þingsins, fjarri því. Ég vona að við þurfum ekki að láta þær hafa áhrif á afgreiðslu þessa máls og vænti þess að því ljúki og frv. verði að lögum en á öðrum vettvangi mætti síðan taka upp umræður um hina fræðilegu hlið fornleifanna fyrir þá sem það kunna að gera. Ég held að ekki sé nokkur vafi á því að það sem verið er að gera núna í skipulagsbreytingum í Þjóðminjasafninu muni auðvelda byggðasöfnunum að takast á hendur þau verkefni sem þeim er ætlað að vinna og það muni verða fornleifarannsóknum, fornleifaskráningu, til framdráttar, enda hefur verið mörkuð sú stefna á þeim bæ þar sem er Þjóðminjasafnið, að fornleifaskráning, fornleifarannsóknir, hefðu forgang. Í þeim tilgangi hefur verið gengið til þess verks að ráða minjaverði út um landið til þess að auðelda forstöðumönnum byggðasafnanna að vinna að þessum málum. Þetta vildi ég að kæmi hér fram, virðulegi forseti.