Lögræðislög

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 14:39:18 (6315)

1997-05-13 14:39:18# 121. lþ. 123.40 fundur 410. mál: #A lögræðislög# (heildarlög) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[14:39]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Þau ánægjulegu tíðindi hafa gerst í meðferð allshn. á þessu máli að stjfrv. er breytt með brtt. allshn. við eitt veigamesta atriði þessa frv., nefnilega 1. gr. þess um sjálfræðisaldur. Og nú er lagt til að hann verði hækkaður í 18 ár eins og fram kom hjá frsm. nefndarinnar.

Til upprifjunar vil ég geta þess að á síðasta þingi lagði bæði ég ásamt kvennalistakonum og Jóhanna Sigurðardóttir ásamt fleiri þingmönnum fram tvö nær samhljóða frv. um að sjálfræðisaldur yrði hækkaður úr 16 í 18 ár og á þessu þingi lögðum við Jóhanna Sigurðardóttir sameiginlega fram eitt frv. um sömu lagabreytingu, 49. mál þessa þings. Þetta er reyndar nefnt í nefndaráliti allshn.

Frv. okkar Jóhönnu Sigurðardóttur var sent út til umsagnar og skemmst er frá því að segja að allar umsagnir reyndust jákvæðar og níu af tíu tóku beinlínis afstöðu með hækkun sjálfræðisaldurs. Þeir sem fengu frv. sent voru Barnaheill, Heimili og skóli, Félag framhaldsskólanema, Sýslumannafélag Íslands, Félagsmálastofnun Akureyrar, Félagsmálastofnun Hafnarfjarðar, Félagsmálastofnun Kópavogs, Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar og Barnaverndarstofa.

Það er mjög ánægjulegt þegar svona gerist. Það virðist vera, eins og reyndar kemur fram í frv. sjálfu, að viðhorf hafa verið að breytast til þessa ákvæðis. Þegar frumvarpsdrögin voru fyrst send út á vegum þeirrar nefndar sem samdi frv., voru mun skiptari skoðanir um þetta mál en þegar lokið var við frumvarpsdrögin, voru umsagnir mun jákvæðari. Það endaði með því að nefndin sem samdi frv. samdi tvö samhljóða frumvörp eins og kom fram í máli frsm., en ríkisstjórnin ákvað að leggja það form frv. fram sem gerði ráð fyrir óbreyttum sjálfræðisaldri. En nú hefur það sem sagt gerst að innan allshn. hefur myndast meiri hluti fyrir því að hækka sjálfræðisaldurinn í 18 ár þó að tveir nefndarmenn skrifi undir álitið með fyrirvara.

Ég ætla ekki að fara í smáatriðum ofan í þau rök sem ég tiltók við 1. umr. með því að hækka sjálfræðisaldurinn, en þau eru dregin saman á bls. 2 í nefndaráliti allshn. Þau eru fyrst og fremst þannig að þjóðfélagsaðstæður hafa breyst á síðustu árum og íslensk ungmenni búa í foreldrahúsum og veitir ekki af því skjóli og þeirri vernd sem hækkuðum sjálfræðisaldri fylgir. Meginrökin eru að mínu mati þau að þetta á við allan hópinn í heild. En röksemd númer tvö sem einnig er veigamikil er sú að þetta auðveldar mjög meðferð á barnaverndarmálum, þ.e. meðferð á ungmennum 16--18 ára, hvort sem um er að ræða fíkniefnaneytendur eða ekki síður eins og kom skýrt fram hjá fulltrúum Geðhjálpar og Geðlæknafélags Íslands að geðsjúkdómar birtast yfirleitt á unglingsárum og þá getur verið mjög mikilvægt við meðferð þeirra að foreldrar hafi möguleika á að grípa til festu í uppeldismálum, þannig að barnið geti ekki bara flutt að heiman eða útskrifað sig af stofnun ef um það er að ræða.

Við í allshn. ræddum ítarlega um hvort vegna þessarar breytingar þyrfti að breyta öðrum lögum og um nokkur þeirra er rætt í sjálfu frv. Niðurstaða nefndarinnar varð að ekkert af því væri nauðsynlegt, en það væru síðari tíma ákvarðanir að meta hvað væri æskilegt.

Helstu rökin sem hafa verið notuð gegn hækkun sjálfræðisaldurs eru þau að verið sé að svipta stóran hóp ungmenna sjálfræði vegna nokkurra sem eiga í vandræðum. Ég get alls ekki séð að þetta séu rök nema einhver vandamál séu á ferðinni vegna þess að ef unglingur vill t.d. fara að heiman eða gera eitthvað slíkt og foreldri telur slíkt æskilegt, þá er það að sjálfsögðu heimilt þannig að mér finnst í rauninni mjög veigalítil þau rök sem mæla gegn þessari breytingu og mjög tímabært og mikilvægt að okkar löggjöf sé bæði í samræmi við nágrannalöndin og í samræmi við skilgreiningar í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ég tel og að þetta muni auðvelda flutninga á milli landa með börn á þessum aldri.

Það er sem sagt mjög mikið fagnaðarefni að þetta varð niðurstaðan í nefndinni. Að öðru leyti varð mjög mikil sátt um allar aðrar breytingartillögur og um þetta frv. í heild og ég styð það heils hugar eins og það er lagt fram nú með þessum breytingartillögum.