Lögræðislög

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 15:16:14 (6323)

1997-05-13 15:16:14# 121. lþ. 123.40 fundur 410. mál: #A lögræðislög# (heildarlög) frv., ÁRÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[15:16]

Árni R. Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég hef áður nefnt það sem ég heyrði í starfi nefndarinnar um flutning fjölskyldna milli landa. En um hitt sem hv. þm. gerði að umtalsefni að ekki hefðu heyrst rök fyrir afstöðu minni, þá verð ég hreinlega að viðurkenna að mér sýnist að þegar fólk heyrir rök fyrir afstöðu sem það ekki vill fallast á, þá telji það að engin rök hafa komið fram. Mér er alveg ljóst að þau rök sem fyrir mig eru mikilvæg í þessu efni gilda litlu fyrir hv. þm. En þegar hún heldur því fram að hún hafi ekki heyrt rök, þá finnst mér gegna öðru.

Ég hef tínt til, herra forseti, þó nokkur atriði sem ég tel skipta máli og eru mér veigamikil. Það eru rök. Það kann vel að vera að einhver þeirra séu hlaðin tilfinningum eins og hefur vissulega komið fram í skoðunum fleiri hv. þm. sem eru mér ekki sammála. Ég hins vegar tel bæði skemmtilegt og, ég hef nefnt það, sérstaklega virðingarvert að við höfum til þessa, sem ég tel rétt að við gerum áfram, veitt ungmennum réttinn til sjálfræðis fyrr en í grannlöndum okkar. Ef hann veitir svona lítið eins og hv. þm. nefndi, hvers vegna þá að vera í þessu basli og deilum til að breyta því sem er svona lítils virði? Ég tel að það sé mikils virði fyrir uppvaxandi ungmenni og ég hef margsagt það. Og ég heyri það alveg ljóst að hv. þm. er mér gjörsamlega ósammála um það.