Lögræðislög

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 15:43:11 (6332)

1997-05-13 15:43:11# 121. lþ. 123.40 fundur 410. mál: #A lögræðislög# (heildarlög) frv., ÓÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[15:43]

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það er ekki á hverjum degi sem við fjöllum um mannréttindi hér í þessum sal, um mannréttindi á Íslandi. Við viljum fjalla um þau í Kína. Þar vitum við hvernig þau eiga að vera.

Hér hefur komið fram að allshn. hefur ákveðið að gera breytingar á frv., tillögu um brtt. á stjfrv. til lögræðislaga. Þetta frv. er um margt merkilegt. Það tekur á þeim vandamálum sem verið hafa þegar þarf að svipta einhvern sjálfræði eða lögræði. Eins og hæstv. dómsmrh. gat um þá er þar á ferðinni stórmál. Þar er á ferðinni mjög stórt mál, mjög stór ákvörðun. Börn, konur og gamalmenni hafa í gegnum aldirnar mátt þola minni mannréttindi en aðrir. Hinn sterki í leiknum hefur verið karlmaðurinn sem hefur skikkað aðra í umhverfi sínu til að standa eins og honum hefur líkað. Við höfum verið að reyna að breyta þessu samfélagi og við höfum vissulega fært konum mikil völd á seinni árum sem ég tel af hinu góða og í átt til mannréttinda. Við höfum einnig verið að styrkja stöðu gamalmenna. Allt eru þetta mannréttindi.

Einn er sá hópur aftur á móti sem við höfum viljað bera umhyggju fyrir en tvímælalaust hefur að sumu leyti mistekist, þ.e. sú forsjárhyggja sem við höfum viljað hafa hefur ekki skilað þeim árangri sem vert væri. Við höfðum fræðsluskyldu í þessu landi. Við tókum upp skólaskyldu. Það er mikill munur á þessu tvennu. Við sögðum að skólaskyldan ætti að vera til þess að börnin hefðu þau réttindi að þau ættu að vera í skóla, það væru til foreldrar sem vildu kannski ekki að þau færu í skóla og nú höfum við langa skólagöngu þar sem börn eru skikkuð til að vera í skóla hvort sem þeim líkar það betur eða verr. Sum brjótast undan þessu oki og fara að heiman og flakka um höfuðborg Íslands, Reykjavíkurborg, og eiga hvergi höfði sínu að að halla. Það er staðan hér á þessu svæði.

Við horfum til útlanda og segjum: Fyrst þetta er svona á Norðurlöndunum þá á þetta að vera svona hérna líka. Það er nú svo. Við höfum haft þrek til þess Íslendingar að hafa sérstöðu í ýmsum málum. Við höfum engan her. Við höfum ekki skipað 18 ára unglingum, karlmönnum, að mæta til herskráningar til að gegna herþjónustu, til þess að þurfa að hlýða þeirri skipun að fara á vígvöllinn og falla þar eða verða skotnir sem liðhlaupar ella. Við höfum ekki haft þessa reglu. Er þetta ekki eitt af því sem er sérstaða þessarar þjóðar? Viljum við leggja þetta af? Viljum við breyta þessu? Viljum við fá kirkjugarða eins og eru í Evrópu þar sem tvítugir karlmenn liggja og merkt er á hvítum krossi nafnið og hvenær þeir féllu? Er það markmiðið til samræmingar á löggjöfinni að taka þetta upp? Nei. Ég hlusta ekki á svo fáránleg rök að af því að þetta sé á Norðurlöndunum þá eigi það að vera eins hérna. Það verða að vera merkilegri rök sem menn færa fram.

Og hvaða vandamál eru það í flutningi á milli landa? Er ekki svo að hver sá sem flytur til nýs menningarheims verður að taka að einhverju leyti tillit til þess svæðis sem hann flyst til? Er það nokkuð nýtt í sögunni? Er þetta ekki nokkuð sem verður að gerast?

Við tókum okkur til og breyttum einu atriði, Íslendingar, til að auðvelda mönnum að flytjast á milli landa og það var að við tókum upp hægri umferð af því að við töldum að það mundi auðvelda Íslendingum að aka bifreið erlendis.

Kosningarrétturinn er eitt af því sem menn hafa verið að fá á liðnum árum sífellt yngri vegna þess að við höfum trú á því að í upplýsingasamfélagi samtímans, eftir langa skólagöngu barna og ungmenna, þá væri þessi hópur færari til þess nú en áður að taka fullgildan þátt í þjóðfélaginu. Eigum við að færa þau réttindi til baka? Er niðurstaðan sú, andleg og líkamleg afturför sem hér er boðuð að það sé nauðsyn, brýn nauðsyn, að svipta ákveðinn hóp þessum mannréttindum?

Það kom fram hjá síðasta ræðumanni, Hjálmari Jónssyni, hv. 2. þm. Norðurl. v., að það væri hrein undantekning ef ungmenni sem hlotið hefði sjálfræði hefði verið dæmt og svipt sjálfræði. Slíkt getur gerst, vissulega og það getur verið full þörf á að gera það. Það eru undantekningartilfelli. Það er eins með fullorðna. Fullorðnir menn hafa verið sviptir sjálfræði í þessu landi. Þeir hafa m.a. verið settir í steininn eða á geðsjúkrahús af illri nauðsyn.

Þeir sem halda því fram að ekki sé verið að svipta neinn réttindum með þessu mættu hugleiða, ef það væri tekin ákvörðun um að færa kosningarréttinn upp um tíu ár og sagt að þeir sem væru komnir á þennan aldur fengju að halda öllum sínum réttindum, það væri ekkert af þeim tekið, það væru bara þeir sem væru að fara inn á þetta nýja skeið sem kæmust ekki til þessara mannréttinda fyrr en eftir tíu ár, hvort menn mundu líta svo á að það væri ekki að svipta menn neinu? Mundu menn líta svo á að þetta væri eðlilegur hlutur og það væri engin svipting mannréttinda? Því miður þá skil ég ekki málflutning þess sem hefur ruglast svo í ríminu að hann áttar sig ekki á einföldum staðreyndum í þessum efnum.

Hér stendur í 2. gr., með leyfi forseta:

,,Sjálfráða maður ræður einn öðru en fé sínu, nema lög mæli á annan veg.``

Og lög mæla á annan veg. Lög mæla svo fyrir að sjálfráða maður ræður sínu sjálfsaflafé. Blaðburðarstrákurinn sem ber út blöð er fjárráða hvað það snertir að hann ræður yfir þessum peningum sem hann vann sér heiðarlega inn. Hann á þessa peninga og hann fær að ráðstafa þeim. Þannig liggur það alveg ljóst fyrir að þegar hér er sagt í þessum þingsal að þetta breyti engu nema að unglingarnir geti ekki flutt að heiman þá er vanþekkingin komin á slíkt stig að maður spyr: Hvað hefur komið fyrir fólk sem þannig talar, og er þó vel af guði gert? Hvað hefur komið fyrir það fólk sem snýr hlutunum gjörsamlega við? Mannréttindi eru þau að ráða sjálfum sér. Hverjir réðu ekki sjálfum sér til forna? Það voru þrælarnir. Þeir réðu ekki sjálfum sér. Þeir urðu að hlýða húsbónda sínum. Vissulega þarf að vernda börn og ungmenni, leyfa þeim að þroskast, leyfa þeim að ná þeim styrkleika þegar þau hefja flugið að þau valdi þeim verkefnum sem bíða þeirra. En hvaða dýr í dýraríkinu æfir ekki sín afkvæmi, æfir þau ekki áður en það veitir þeim fullt frelsi? Ég veit ekki um nokkurt dýr sem ekki æfir sitt afkvæmi einhvern veginn, styður það og æfir það, en þegar hæfni þess fer að fara fram úr foreldrinu þá fær það sitt frelsi. (Gripið fram í.)

Halda menn að einstæðar mæður ráði við 18 ára syni sína? Búast menn við því? Á að kalla þessar mæður fyrir og fara með þær niður á lögreglustöð vegna þess að strákurinn stóð í slagsmálum niðri í bæ? Er það það sem menn eru að biðja um? Þær eru ábyrgar, hundrað prósent ábyrgar, ef þetta er tekið upp. Þeirra uppeldi hefur brugðist, er sagt. Þær aga ekki strákinn til á aldrinum frá 16 eða 17 ára. En eru þær færar um það? Hafa þær afl á við gripinn ef þær skyldu nú ætla að hirta hann? Ég efa það stórlega.

Þá hljótum við að spyrja: Hvers vegna er verið að gera þetta? Jú, það virðist einhvern veginn þannig að stundum fara af stað tískusveiflur í samfélaginu sem segja: ,,Það er vandamál, það er vandamál, það er vandamál.`` Og sá sem var skipaður, fyrrv. aðstoðarmaður félmrh., til að vinna að barnaverndarmálum, hóf þennan söng. Hann hóf þennan söng að það yrði að svipta ungmenni sjálfræðisréttinum. En mér sýnist nú, þrátt fyrir þau vísu öfl sem þeim málum stjórna, að það sé samt svo að þó unglingar hafi ekki náð þessum aldri og séu ekki sjálfráða þá ráði þeir í sumum tilfellum harla lítið við þá.

En til eru ýmsar aðrar hliðar á þessu máli. Það er vissulega rétt að unglingur sem er sjálfráða getur flutt að heiman en í fæstum tilfellum gerir hann það. Í flestum tilfellum er það svo að hann hefur skjól hjá sínum foreldrum, hann vill gjarnan vera þar, þar hefur honum liðið vel. En sumum unglingum hefur ekki liðið vel. Það er alvaran stóra. Við vitum ekki allar ástæðurnar fyrir því að þeim hefur ekki liðið vel. Við vitum ekki alltaf hvers vegna þetta eða hitt brýst út hjá unglingum á ýmsa vegu. En þegar unglingum líður illa þá brýst það yfirleitt út í því að þeir gera eitthvað sem er vanhugsað. Eftir samræmdu prófin þyrptust unglingar í Reykjavík t.d. niður í bæ og stóðu fyrir skrílslátum vegna þess að þeim leið illa hvort sem okkur líkar það betur eða ver.

Ég held að hvað sem sagt er af frsm. um þessar hugmyndir þá sé vonlaust annað en að fara yfir þetta í rólegheitum og af festu. Sjálfráða maður ræður yfir líkama sínum. Hvað þýðir það? Hann ræður því m.a. hvaða vini hann velur sér. Hann ræður því líka hvaða maka hann velur sér.

  • Ég fyrirleit þeirra festaröl,
  • hann faðir minn drakk það af list.
  • var ort í orðastað þeirrar konu sem seinna meir átti eftir að verða örlagavaldur í lífi margra karlmanna og neitaði einum um hárlokk í bogastreng hans. Það voru kynni hennar af fyrstu ráðstöfun föðurins sem hafði gift hana nauðuga manni sem hún hafði lítinn áhuga á, gömlum manni. (Gripið fram í: Hún var 12 ára.) Hún var 12 ára gömul, það er rétt. Dóttir hennar giftist 13 ára ef ég man þetta rétt. Þannig voru Íslendingar til forna. Höskuldur virti lítt mannréttindi. Hann var í þeirri samtíð þegar menn tóku þræla og töldu það rétt. Vilja menn og vilja mæður þessa lands að þær ráði gjaforði dætra sinna og sona, ráði hverjir verða vinir þeirra? Vilja þær hafa réttinn til að senda þær til Englands ef þær skyldu nú álpast til að verða hrifnar af einhverjum sem þeim líst ekki á hér á landi? Er það þessi réttur sem verið er að biðja um? Er það rétturinn til að fá að loka þær inni ef þeim líst ekki á strákinn sem þær vilja fara með í bíó? Hvaða rétt er verið að biðja um? Hvar er þetta lafhrædda lið sem heldur þessu fram, að það þurfi að aga þessa unglinga? Er það svo rosalega hrætt við það að sjálfræði æskunnar sé það að menn vilja fá að ráða sér sjálfir? Ég veit að í Bandaríkjunum er sú regla að strákurinn verður að bjóða stelpunni út til að hún komist á ball. Það eru hreinar línur. Og stúlkan situr uppi með það í mörgum tilvikum að verða að sýna foreldrunum gripinn áður en haldið er af stað. Það verður gaman að sjá þessa rannsóknarnefnd sem tekur til starfa til að fylgjast með hlutunum og aga liðið til þegar búið er að koma skikk á málin. En væri nú ekki vitlegra að fara í tvítugt því það eru nú ekki allir sem binda sig á aldrinum 16--18 ára ef eftirlitið á að verða 100%?

    Það eru líka aðrar hliðar á þessu máli. Nú gerist það stundum að konur á aldrinum 16--18 ára eignast börn. Hver á að ráða því hvort þær fara í fóstureyðingu eða ekki? Ræður sjálfráða stúlka því? Já, hún ræður því. En sú sem er ekki sjálfráða, ræður hún því? Ég held að það sé rétt að menn svari þessari siðferðisspurningu strax undanbragðalaust. Hún fór og lét ferma sig, hún fer til prestsins síns og spyr hann að því hvort hún sé skyldug að fara í fóstureyðingu eftir að foreldrarnir hafa lagt á ráðin með að knýja hana til þess. Hver ræður undir þeim kringumstæðum? Hitt málið: Hún fæðir sitt barn. Eiga foreldrarnir þá að hafa rétt til að taka barnið af henni og gefa það? Hún er ekki sjálfráða. Eiga þeir að hafa þann rétt? Þekkja menn ekki til sögunnar í þessu landi? Eða vilja menn ekki ræða málið á þeim grundvelli að það sé verið að tala um alvöruhluti en ekki einhvern skrípaleik, einhverja smámuni, þegar verið er að tala um þetta? Það er verið að tala um mannréttindi, mannréttindi í orðsins fyllstu merkingu.

    Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að það er hægt að senda svona mál út til umsagnar í ýmsar áttir og fá: ,,Já, já, já``. Það eru kallaðar jákvæðar umsagnir. Góðar umsagnir. ,,Af hverju skyldu sumir alltaf vera svona neikvæðir``, er sagt þegar umsagnirnar eru á hinn veginn. ,,Alveg er þetta voðalegt hvað þeir eru neikvæðir.`` Og oft er það nú svo að sá sem á að rannsaka málið situr í rannsóknarnefndinni miðri, þ.e. nefndinni sem á að rannsaka málið og meta hvort það sé vit í því. Flm. sem flutti málið er einnig maðurinn sem situr í nefndinni og á að meta hvort það sé vit í því. Þegar þannig var statt í þessu þingi að við höfðum tvær deildir, efri deild og neðri deild --- í virðingarskyni við fyrrv. forseta sameinaðs þings þá hef ég þessa röð á málum þó að neðri deildin hafi að sjálfsögðu verið fjölmennari og hafi alltaf verið ,,hin efri deild`` --- var nefnilega séð við þessum leka. Þegar deildin þar sem flm. sat var búin að taka málið fyrir þá fór málið til hinnar deildarinnar og þar sátu þeir einir sem gátu ekki hafa verið flm. að málinu. Þeir voru því óbundnir til að fjalla um málið. Það er þessi stóri munur á því hvort hér er starfað í einni deild eða tveimur. Og að mínu viti er það söguleg staðreynd að síurnar voru teknar úr þinginu þegar hætt var að hafa tvær deildir.

    Það er verið að tala um að menn séu vanhæfir á ýmsa vegu, vanhæfir til að fjalla um þetta og hitt, vanhæfir til að meta hlutina. Ef þeir eru vanhæfir til að dæma í eigin málum þá er margt sem mælir með því að þeir séu vanhæfir til að vera umsagnaraðilar um eigin mál sem þeir hafa flutt til nefnda. Það væri álíka út í hött að mínu viti og ef skáld færi að skrifa ritdóm um eigin bók. Ég er ekki í nokkrum vafa um að hann gæti gert það myndarlega og mundi vanda sig ef hann tæki að sér að skrifa ritdóm um eigin bók. En sá sem flytur tillögu, lagatillögu, lætur vísa henni til nefndar og kemur svo með nál. frá viðkomandi nefnd þar sem hann hefur skrifað undir ágæti eigin tillögu, er í sjálfu sér ekki að gera neitt annað en að flytja ritdóm um eigin bók, um eigið verk. Þess vegna gef ég lítið fyrir það þegar búið er að hamast á þennan hátt í einhverri nefnd.

    Ég gæti talað hér langt mál. Það er nú einu sinni svo að mér finnst ekki mikið vandaverk að standa og gagnrýna það sem ég er sannfærður um að er til verri vegar. Hins vegar er það svo af virðingu fyrir þinginu þá tel ég ekki rétt á nokkurn hátt að reyna að halda hér uppi málþófi eða neinu slíku. En ég vil spyrja að öðru: Hvernig stendur á því að hér er skipulega tekið fyrir heilt frv. sem fjallar fyrst og fremst um það hvernig eigi að svipta menn þessum réttindum, þegar það er talið nauðsynlegt, ef þessi réttindi eru svo lítils virði eins og hér hefur verið fleygt fram, að þetta sé fyrst og fremst það að nú geti börn ekki flutt að heiman eða nú sé hægt að koma aga yfir unglingana? Hvers vegna er þá verið að vinna jafnmikið frv. og hérna er? Það er allt sem bendir til þess að hér hafi menn í mikilli fljótfærni neitað að taka tillit til staðreynda. Og staðreyndirnar eru þessar:

    Það hefur gefist vel í þessu landi að hafa mun á því að verða sjálfráða og lögráða þannig að þarna kæmi tímabil þegar unglingar færu annars vegar með fjárræði þeirra fjármuna sem þeir ynnu sér inn og hins vegar þegar kæmi að því að þeir mættu ráðstafa meiri fjármunum ef þeim hefði áskotnast eitthvað af arfi eða þeir hefðu eignast eitthvað öðruvísi, með gjöfum eða slíku. Og það er viðurkennt af öllum að á seinustu árum hefur þroski og atgervi unglinga verið á þann veg að þroskinn hefur verið að aukast og atgervið hefur verið að vaxa. Frá erfiðleikatímabilum þessarar þjóðar hefur þjóðin nú verið að rétta úr kútnum. Ungmennin hafa orðið hærri og vörpulegri en þau voru áður. Aukinn reynsluheimur í gegnum kvikmyndir hefur fært þeim meiri þroska og í gegnum bókmenntir einnig og meiri skólagöngu. Ef þessu væri ekki á þann veg farið þá værum við að sóa fjármunum í stórkostlegum stíl með þeirri menntastefnu sem er í landinu. Ég trúi ekki að svo sé. Þess vegna segi ég: Mannréttindi eru nokkuð sem ég ber mikla virðingu fyrir. Ég mun ekki treysta mér til að leggja til eða standa að því að greiða atkvæði með því að mannréttindi þróist í öfuga átt í þessu landi.