Lögræðislög

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 16:57:48 (6337)

1997-05-13 16:57:48# 121. lþ. 123.40 fundur 410. mál: #A lögræðislög# (heildarlög) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[16:57]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég tek undir margt það sem fram hefur komið gegn hækkun sjálfræðisaldurs hjá þeim hv. þm. sem talað hafa á undan mér, en þó sérstaklega undir það sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sagði um hækkun sjálfræðisaldurs og áhrif hans á sjálfstæði fólks.

Við erum hér að ræða um hækkun sjálfræðisaldurs úr 16 ára í 18 ára. Við erum sem sagt að tala um að breyta einhverju sem verið hefur og til þess þurfa að liggja rök. Þau rök sem ég hef heyrt eru þau að það sé einhver þróun erlendis og samræming við erlendar reglur.

Nú er það svo að löggjöf og þróun haldast í hendur þannig að með lögum má koma af stað ákveðinni þróun og þvinga hana fram og þróunin getur einnig kallað á lagasetningu. Ég sé ekki það í þróun hérlendis sem kallar á að hækka sjálfræðisaldurinn í 18 ár.

Annað sem fært hefur verið fram sem rök er að til séu vandræðaunglingar og fólk sem erfitt er að koma böndum á nema það sé svipt sjálfræði. Og menn ætla að fórna réttindum 8.000 einstaklinga til þess að koma böndum á 30--100 manns sem meðferðaraðilar eiga í erfiðleikum með. Á þessu er mjög einföld lausn. Hún er sú að búa til einfalda leið fyrir foreldra og barnaverndaryfirvöld til þess að fresta sjálfræði til 18 ára aldurs ef á þarf að halda. Þannig yrði leystur vandi þessara örfáu unglinga en ekki verið að fresta sjálfræðisaldri allra hinna unglinganna sem hegða sér skikkanlega.

Maður hlýtur að spyrja sig: Hvers vegna 18 ár? Með nákvæmlega sömu rökum má fara upp í 20 ár. Til eru líka einstaklingar sem meðferðaraðilar eiga í vandræðum með sem eru að verða 20 ára. Og hvers vegna þá ekki 30 ár? Það er fullt af einstaklingum sem eru í áfengisneyslu og vímuefnaneyslu allt upp í 30 ár eða 40 ár eða 50 ár. Hvar setjum við mörkin?

Herra forseti. Það eina sem ég get séð sem rök fyrir því að hækka sjálfræðisaldurinn í 18 ár er samræming, þ.e. ef menn hefðu það sem stefnu að taka upp 18 ára aldur við bílpróf, áfengisneysluheimild og giftingaraldur. Þá væri ég við kannski til í að samræma þetta og hækka þetta þannig að blessaðir unglingarnir þyrftu ekki að læra á fjöldann allan af mismunandi ,,öldrum``, þ.e. hvenær þeir mega þetta og hvenær þeir mega hitt. Það er það eina sem ég get séð sem rök.

Herra forseti. Einkenni íslenskra ungmenna þegar maður ber þau saman við erlend ungmenni eru að íslensk ungmenni eru frjálsleg, þau eru sjálfstæð, þau eru dugleg og þau eru ábyrg í miklu meira mæli heldur en maður tekur eftir hjá erlendum ungmennum. Og hvers vegna skyldi það vera? Skyldi það ekki vera vegna þess að við höfum aldagamla hefð, sögulega hefð fyrir því að menn verða sjálfráðir miklu yngri en erlendis? Það fer nefnilega saman sjálfsákvörðun og ábyrgð, það fer saman nákvæmlega eins og forsjá og ábyrgðarleysi fer saman. Ef haldið er í tauminn á einhverjum mjög fast, þá hlýðir hann að sjálfsögðu og hefur ekkert frumkvæði og ber enga ábyrgð. Þetta er það sem er verið að gera við ungmennin með því að hækka sjálfræðisaldurinn.

Ég get vel skilið að sumt félagshyggjufólk dreymi um að skipuleggja líf einstaklinga frá vöggu til grafar og jafnvel heilu þjóðfélögin eins og Sovét er dæmi um. En þessir draumar hafa hrunið. Það hefur sýnt sig að það borgar sig ekki að skipuleggja líf þjóðfélaga eða einstaklinga frá vöggu til grafar. Ég get vel skilið að félagshyggjufólk vilji hækka sjálfræðisaldurinn í 18 ár minnst, en ég fellst ekki á þau rök.

Með þessari tillögu er verið að svipta 8.000 Íslendinga sjálfræði sínu. Það er verið að svipta þá því. Þau rök að þeir hafi aldrei haft sjálfræði og þar með sé ekki verið að svipta þá sjálfræði eru furðuleg. Með nákvæmlega sömu rökum mætti svipta alla Íslendinga kosningarrétti hægt og bítandi og jafnvel alveg til sjötugs. Þeir hafa aldrei haft kosningarrétt. Hægt og bítandi. Þetta eru náttúrlega ekki nokkur einustu rök í málinu. Það er verið að svipta þennan hóp fólks sjálfræði sínu. Þeir sem eru fæddir 1. janúar 1982 eða seinna munu ekki fá sjálfræði eins og er í núgildandi lögum. Það er verið að svipta þetta fólk sjálfræði. Það er verið að gera það að börnum og ég er á móti því.

Þetta er alvarlegt mál eins og flestallir þingmenn, bæði þeir sem eru á móti og með, hafa bent á. Það er alvarlegur hlutur að svipta menn sjálfræði. Sumir hv. þm. eru að leggja til að svipta 8.000 manns sjálfræði. Það er alvarlegur hlutur og ég get ekki fallist á það. Ég er mótfallinn þessari hækkun sjálfræðisaldurs.