Lögræðislög

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 17:07:59 (6342)

1997-05-13 17:07:59# 121. lþ. 123.40 fundur 410. mál: #A lögræðislög# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[17:07]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Á aldrinum 14--17 ára verða miklar breytingar hjá einstaklingnum. Hann þroskast verulega mikið á þessum árum. Það er mikill vandi forráðamanna barna að gefa eftir línuna sem heldur þeim heima þannig að hún slitni ekki og laxinn stingi ekki af eins og oft og tíðum vill verða með mikilli sprengingu. Ég tel að við 16 ára aldur sé maðurinn tilbúinn til að prófa að fara að heiman.

Ég lít ekki þannig á að 17 ára júdókappi sé barn. Ég get ekki litið þannig á, því miður. Minn málskilningur segir að 17 ára júdókappi sem er kominn upp í 100 kg sé ekki barn. Hann er fullkomlega nægilega þroskaður sem og annað ungt fólk á sama aldri til þess að búa einn ef hann kýs svo. Þeim þjóðfélagsbreytingum sem nefndar eru er stýrt með lögum. Ef þessi lög verða sett, þá erum við að búa til þróun. Það eru lögin sem búa til þróunina oftast nær en ekki öfugt. Sú forræðishyggja sem kemur til okkar frá Evrópu er ekki til eftirbreytni, ekki að þessu leyti. Hv. þm. sagði að lögin væru merkingarlaus fyrir flest ungt fólk. Af hverju má þá ekki 16 ára viðmiðið gilda áfram fyrst þau eru merkingarlaus hvort sem er? Og ef um er að ræða einhvern lítinn hóp fólks sem þarf að hjálpa, þá er einmitt mjög gott að taka inn svona ákvæði sem ég benti á, að það mætti fresta sjálfræðisaldrinum allt að 18 ára.