Lögræðislög

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 17:42:32 (6351)

1997-05-13 17:42:32# 121. lþ. 123.40 fundur 410. mál: #A lögræðislög# (heildarlög) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[17:42]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Þessi rök sem nefnd eru í nál. eru í frv. Ég hafði rekið augun í það og nál. tekur þau upp eins og þau eru þar fram borin. Ég bendi hins vegar hv. þm. á að sá sem lagði fram frv., hæstv. dómsmrh., lagði til að sjálfræðisaldurinn yrði 16 ár. Rökin sem eru í frv. og þau sömu sem eru í nál. sögðu honum að sjálfræðisaldurinn ætti að vera 16 ár. Það varð niðurstaða ráðherrans og ríkisstjórnarinnar. Það er nefndin sem breytir tillögunni út frá sömu forsendum. Þess vegna þarf hún að rökstyðja hvernig hún komst að því.

Það hefur ekki komið fram hjá formanni allshn. hvernig samhengið er á milli þess að börn búa lengur á heimili foreldra sinna leiði til þess að nauðsynlegt sé að taka af þeim sjálfræðið og veita þeim það ekki fyrr en 18 ára. Hvar er samhengið þar á milli? Hvar er samhengið á milli minnkandi atvinnumöguleika unglinga og þess að þeir eiga ekki að hafa sjálfræði 16 ára? Hvar er samhengið á milli lengri skólagöngu og þess að börn eiga ekki að fá sjálfræði 16 ára heldur 18 ára? Er von að ég spyrji: Er skólinn svona vondur?

Ég vil svo leggja fyrir hv. formann allshn. þá spurningu: Er hann þá tilbúinn að leggja það til að aldur til að taka bílpróf verði hækkaður úr 17 árum upp í 18 ár? Er það ekki ósamræmi að ósjálfráða fólk geti tekið bílpróf?