Lögræðislög

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 17:46:07 (6353)

1997-05-13 17:46:07# 121. lþ. 123.40 fundur 410. mál: #A lögræðislög# (heildarlög) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[17:46]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Nú fyrst kastar nú tólfunum. Formaður allshn. upplýsir að það komi til greina vegna þessarar breytingar á hækkun sjálfræðisaldurs að hækka aldur til að taka bílpróf. En nefndin getur ekki haft skoðun á málinu. Hún þarf að gera skoðanakönnun. Þingnefnd, alþingismenn sem eru valdir til að setja þjóðinni lög, treysta sér ekki til að hafa skoðun á því hvort ekki þurfi að samræma bílprófsaldur og sjálfræðisaldur. Nei. Nú gerum við skoðanakönnun, herra forseti. En það þurfti ekki að gera neina skoðanakönnun varðandi það að gera breytingu á tillögu ráðherrans og ríkisstjórnarinnar. Hvar var sú skoðanakönnun gerð? Hvar var hún gerð? Hún var gerð í allshn. Ég segi nú, herra forseti, að þetta var það veikasta sem fram hefur komið í þessu máli.

Síðan kom merkileg yfirlýsing hjá hv. formanni nefndarinnar, að það þyrfti ekki að vera að samræma á alla enda og kanta. Þar er ég fyllilega sammála þingmanninum. Þar með erum við bæði sammála því að þau rök sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir bar fram duga ekki, að það þyrfti að samræma við löggjöf í útlöndum. Samræmingin er því ekki rök í málinu. Menn eiga nefnilega, ég er sammála þingmanninum um það, að taka afstöðu um efni málsins út frá staðreyndum sem liggja fyrir og þeim rökum sem menn geta dregið af þeim staðreyndum. Það er þannig sem menn eiga að vinna, hvorki eftir einhverjum samræmingarkröfum við ótiltekin útlönd eða skoðanakönnun við enn ótilteknari hóp í þjóðfélaginu.