Lögræðislög

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 17:51:06 (6355)

1997-05-13 17:51:06# 121. lþ. 123.40 fundur 410. mál: #A lögræðislög# (heildarlög) frv., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[17:51]

Hjálmar Árnason:

Virðulegur forseti. Ég skal reyna að verða við tilmælum hæstv. forseta um að vera stuttorður, en hér er til umræðu frv. til laga um hækkun lögræðisaldurs úr 16 upp í 18 ár. Þetta er vitaskuld, eins og fram hefur komið í ræðum manna, viðkvæmt mál. Það má snúa því upp með ýmsum hætti. Þetta er spurning um hvenær ber að líta á að einstaklingur sé orðinn fullorðinn, hvenær einstaklingur er orðinn sjálfstæður, hvenær á einstaklingur að standa á eigin fótum eða hvenær á einstaklingur að axla eigin ábyrgð. Fyrir því má færa rök fram og aftur, með og móti þessari hækkun.

Í mínum huga snýst þetta mál fyrst og síðast um íslenska menningu, íslenska sögu, aðallega þó íslenska menningu andspænis menningu þjóða meginlands Evrópu. Í starfi mínu sem skólamaður átti ég þess kost um árabil að taka árlega á móti erlendu skiptinemum, 2--4 á hverju ári. Það var dálítið merkileg reynsla að sjá erlenda skiptinema koma hingað til starfa og leiks með jafnöldrum sínum íslenskum. Í sem stystu máli var það áberandi, nánast skipti einu hvaðan hinir erlendu skiptinemar komu, að í félagslegum þroska stóðu þeir að mínu mati langt að baki íslenskum jafnöldrum sínum, komandi úr afskaplega vernduðu umhverfi, gjarnan umhverfi stórborga þar sem fjölskylduböndin voru notuð m.a. til þess að vernda ung börn, en við heimförina aftur til síns heimalands eftir ársdvöl á Íslandi og því frjálsræði sem gjarna einkennir uppeldi okkar unglinga þá hafði orðið mikil breyting á þessum erlendu skiptinemum.

Það segir í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að miða skuli við 18 ár sem meginreglu, ég undirstrika sem meginreglu. Þess er enn fremur getið að taka skuli tillit til aðstæðna á hverjum stað og það er eðlilegt. Það er einmitt sá punktur sem ég hefði viljað víkja að, það er þessi sérstæða íslenska menning sem hefur mótast af því að börn og unglingar hafa gengið til léttra verka til sjávar og sveita, getum við sagt, og í borgum, og ég undirstrika léttra verka. Og það sem ég tel að skipti meginmáli þar er að við þau léttu störf hafi íslensk ungmenni fengið að axla ábyrgð, raunverulega ábyrgð, sem fylgir því að taka að sér starf, hvort heldur er launað eða ekki.

Því fylgir líka sá merkilegi þroski og nauðsynlegi að starfa með fullorðnum, læra leikreglur samfélagsins, læra að axla ábyrgð, læra ýmsa góða og aðra vonda siði af hinum fullorðnu, en það er hluti af því að verða fullorðinn, og tileinka sér reglur samfélagsins. Þetta tel ég að hafi verið og séu mikil forréttindi íslenskra ungmenna, að fá að alast upp við þessi skilyrði þó vissulega sé það rétt sem hefur verið bent á að aðstæður hafa verið að breytast, sérstaklega hér á suðvesturhorninu, en atvinnuástand fer til allrar hamingju mjög batnandi og við vitum það að meira að segja hér á þessu fræga suðvesturhorni eða höfuðborgarsvæðinu stunda fjölmargir unglingar störf á sumrin og með skólum.

Hins vegar læðist að manni sá grunur, hvers vegna skyldu þjóðir, einkum um Evrópu, leggja svo þunga áherslu á þessa hækkun í 18 ár, að menn taki þar mið af skelfilegum fréttum sem við sáum einmitt í þessari viku, gott ef ekki var í gær, í sjónvarpi af indverskum börnum í hreinni barnaþrælkun. Það hefur verið lán okkar Íslendinga að þurfa ekki að glíma við barnaþrælkun heldur heilbrigð létt störf og þroskandi. Aðstæður hér eru gjörólíkar því sem eru vandamál ýmissa þjóða heimsins.

Þá læðist jafnframt að manni sá grunur að hækkun sjálfræðisaldurs í 18 ár sé dulin leið til þess að fela atvinnuleysið sem er mikið böl hvar sem það er, en þjóðir heims margar, ekki síst í Evrópu, eiga við þann vanda að glíma, um og yfir 10% atvinnuleysi í Þýskalandi, svo dæmi sé tekið, og þarna getur verið kjörin leið til þess að fela atvinnuleysið. Eins og horfur eru hjá okkur í atvinnulífi og efnahagslífi öllu og þær jákvæðu breytingar sem eru að eiga sér stað mun væntanlega leiða til þess að það böl sem atvinnuleysið er verði ekki það hér hjá okkur eins og hjá nágrannaþjóðum okkar.

Það er af þessari ástæðu, herra forseti, sem mér þykir þessi breyting vera óskynsamleg. Hún stríðir í rauninni gegn sögu okkar og menningu og þeirri sérstöðu sem Íslendingar hafa. Verð ég svo við orðum forseta um að hafa hér stutt mál.