Lögræðislög

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 18:05:08 (6359)

1997-05-13 18:05:08# 121. lþ. 123.40 fundur 410. mál: #A lögræðislög# (heildarlög) frv., HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[18:05]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Ég lýsi enn eftir þeim röksemdum sem ég var að biðja um áðan fyrir hækkuninni. Vissulega er það rétt að hér hafa verið nefndir einstakir aðilar, eins og stjórn Félags framhaldsskólanema sem reyndar segir sjálf að skiptar skoðanir hafi verið um málið hjá. Það væri hægt að tala um margt fleira. Ég benti á röksemdir Lögmannafélags Íslands sem eru heldur andstæðar hækkuninni og telur sig ekki sjá röksemdirnar. Það má benda á fleiri umsagnaraðila. Meðferðaraðilar ýmsir eru hlynntir hækkuninni og það eru ýmsar ástæður fyrir því. En ég vil geta þess aftur að það er verið að reyna að leysa vandann á vitlausum stað. Það er ábyrgð hinna fullorðnu sem þarf að aukast og að þeir taki meiri ábyrgð á börnunum meðan þau eru yngri. Það verður ekki leyst eftir að þau eru 16 ára, á aldursbilinu 16--18 ára. Þá er það enn þá síður mögulegt.