Lögræðislög

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 18:06:25 (6360)

1997-05-13 18:06:25# 121. lþ. 123.40 fundur 410. mál: #A lögræðislög# (heildarlög) frv., VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[18:06]

Valgerður Sverrisdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst og fremst halda því til haga að ég tel að hér sé um táknrænt gildi að ræða. Eins og ég lét koma fram áður dettur mér ekki í hug að við séum að leysa öll unglingavandamál með því að breyta þessu. Ég lít ekki á þetta fyrst og fremst út frá því að það séu örfáir unglingar á aldrinum 16--18 ára sem því miður sé þannig komið fyrir að þeir ættu ekki að hafa sjálfræði. Ég lít á þetta fyrst og fremst út frá því að mér finnst eðlilegt að unglingar fái sjálfræði við 18 ára aldur en ekki 16 ára. Það að þetta skuli hafa verið með þeim hætti sem raun ber vitni fram til þessa hefur kannski verið í samræmi við tíðarandann hér en ég lít á það sem mikinn þrýsting utan úr þjóðfélaginu að sjálfræðisaldur verði hækkaður í 18 ár og vitna til þeirra umsagna sem liggja fyrir nefndinni í því sambandi.