Fjárreiður ríkisins

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 23:51:54 (6384)

1997-05-13 23:51:54# 121. lþ. 123.48 fundur 100. mál: #A fjárreiður ríkisins# frv., Frsm. StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[23:51]

Frsm. sérn. (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig rík ástæða til þess að hafa uppi nokkur varnaðarorð þegar kemur að því að fjalla um 33. gr. þessa frv. sem hér er til meðferðar. Ég skil vel að hv. 2. þm. Vestf. skuli leggja svo ríka áherslu á það sem hann gerir vegna þess að auðvitað hræða sporin nokkuð eins og hann fór rækilega yfir. Hins vegar er það nú sem betur fer þannig að það eru mjög breyttir tímar hvað þetta varðar. Gerðar eru miklu harðari kröfur til stjórnmálamanna og e.t.v. ekki síst ráðherra nú en var gert áður, um að fara að fjárlögum og gæta þess að stýra ríkisfjármálunum þannig að ekki vaði allt á súðum. Þetta frv. gengur m.a. út á það að skýra þessar reglur sem framkvæmdarvaldið verður að fara eftir og 33. gr. fjallar m.a. um það.

Sérnefndin hins vegar flytur brtt. við þessa grein þar sem lögð er áhersla á að fjárln. komi á tiltekinn hátt að þessu máli þegar kemur að ófyrirséðum atvikum og þörf er á framlögum umfram fjárlögin og það teljum við vera til mikilla bóta. Ég vil hins vegar vísa til þess sem ég gerði áður í andsvari við hv. 5. þm. Vestf. þegar ég vitnaði til þess sem segir í ritinu Stjórnskipun Íslands eftir fyrrum prófessor Ólaf Jóhannesson og reyndar forsrh., þar sem hann færir mjög vel rök fyrir því hvers vegna og hvernig skuli staðið að því sem við köllum fjáraukalög og er óhjákvæmilegt að taka auðvitað afstöðu til. Ég tel að sá rammi, sem 33. gr. setur um þetta með þeim breytingum sem sérnefndin gerir tillögu um, skýri þetta mál mun betur og það fer ekkert á milli mála að sú hætta sem hv. 2. þm. Vestf. varar við er ekki eins mikil eftir eins og hún hefur verið.