1997-05-14 00:43:56# 121. lþ. 123.48 fundur 100. mál: #A fjárreiður ríkisins# frv., Frsm. StB
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[24:43]

Frsm. sérn. (Sturla Böðvarsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þær málefnalegu umræður sem hér hafa farið fram en ég tel nauðsynlegt að ég fari nokkrum orðum um það sem hefur komið fram og þá sérstaklega um 30. gr. þessa frv. og þær brtt. sem sérnefndin gerir á þeirri grein. Ég tel að ég hafi komið inn á þau atriði sem lúta að öðrum greinum og gerðar hafa verið athugasemdir við í andsvörum þannig að ég tel ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um það.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson fór yfir þetta mál og gerði sérstaklega að umtalsefni 30. gr. og gerði athugasemdir við hana. Mér fannst hv. þm. tala út frá greininni eins og hún er í frv. Ég get tekið undir það og tók mjög sterklega undir það í ræðu minni þegar ég mælti fyrir nál. sem er sameiginlegt frá nefndinni allri, að við höfum gert mjög veigamiklar breytingar á 30. gr. Ég gat þess að Ríkisendurskoðun gerði miklar athugasemdir við greinina eins og hún er í frv., sömuleiðis Davíð Þór Björgvinsson prófessor sem vann fyrir sérnefndina að mjög vandaðri greinargerð þar sem sérstaklega var fjallað um 30. gr. Ég vil því vekja athygli á því að við höfum nú þegar, og nefndin stendur að því sameiginlega, gert breytingar á þessari grein.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði að 30. gr. byggði á úthugsaðri hugmyndafræði. Út af fyrir sig er það alveg hárrétt, ekki síst á það sérstaklega við núna eftir að sérnefndin hefur gert breytingar á greininni, og það er rétt að skýra það nánar. Hugmyndafræðin gengur út á að reyna að marka skýrari og klárari reglur um þessa þjónustusamninga. Hún gengur ekki út á að einkavæða. Við einkavæðum með því að selja ríkisfyrirtæki og ganga út á markaðinn með þau. Frumvörp um fjárreiður ríkisins, eins og hv. þm. Ágúst Einarsson hefur margítrekað, gengu út á reglusetningu um hvernig eigi að ganga um í rekstri ríkisins. Að því leyti er það hárrétt að þetta er úthugsuð hugmyndafræði að reyna að koma reglu á þá starfsemi, sjá um að þjónustusamningarnir séu gerðir. Hins vegar má deila um það. Það hefur verið gert og var gert í nefndinni hvort þetta ætti að vera ein grein í frv. eða hvort setja ætti upp bálk um þjónustusamninga með sama hætti og lögin um skipan opinberra framkvæmda eða lög um aðra þætti. En niðurstaðan varð sú að bæta 30. gr. og að því verki höfum við í sérnefndinni staðið og náum sameiginlega niðurstöðu í þeim efnum.

Ég vil vekja sérstaka athygli á því og færi rök fyrir máli mínu með því að vekja athygli á þeirri staðreynd að í gangi hafa verið fjölmargir samningar um hin margvíslegustu mál. Þar hefur ekki verið nein harkaleg einkavæðing á ferðinni. Hins vegar er það mat margra þeirra sem hafa verið í sérnefndinni að nauðsynlegt hafi verið, um leið og sett er löggjöf um fjárreiður ríkisins, að skapa skilyrði til að að hægt væri að standa skynsamlegar og betur að samningum um rekstrarverkefni en hefur verið gert. Ég vil nefna nokkur dæmi um samninga sem hafa verið í gildi.

Félmrn. hefur t.d. gert samninga um rekstur heimila fyrir fatlaða. Það eru þjónustusamningar um rekstrarverkefni. Dómsmrn. hefur gert samning sem er mjög þekktur við Neyðarlínuna og Bifreiðaskoðun Íslands. Það hefur verið gerður samningur við Samtök um kvennaathvarf og við Stígamót um sérstök verkefni. Það hefur verið gerður samningur sem var mjög umræddur á síðasta ári við Sólheima í Grímsnesi og svo mætti lengi telja.

Tilgangurinn með því að fara svo rækilega ofan í 30. gr. er að ríkið geti gengið skynsamlega fram í því verki að búa til slíka samninga eins og hafa verið gerðir. Það er engin sérstök einkavæðing á ferðinni. Það er fyrst og fremst tilhneiging og vilji til að hafa ríkisreksturinn skipulegan og vel upp settan. Það er aðalatriði málsins og á það vil ég leggja áherslu.

Ég tel t.d. að það sé eðlilegt að gengið verði til samninga við fjölmargar sjúkrastofnanir sem sinna mikilvægri þjónustu á grundvelli þessarar 30. gr. um rekstrarsamninga. Má þar nefna SÁÁ og St. Fransiskusspítalann í Stykkishólmi, svo við tökum dæmi, jafnvel Borgarspítalann, sem mun vera borgarfyrirtæki, og væri ástæða til að beita þessari nýju löggjöf sem verður vonandi til þess að marka það af með sama hætti og gera þarf samninga við aðra aðila.

Þetta vildi ég að kæmi fram, virðulegi forseti, vegna þess að ég skil varnaðarorð hv. þm. og þeirra sem hafa talað um að gera þurfi 30. gr. vel úr garði. Hins vegar vil ég vekja athygli á síðustu mgr. og þar komum við að mjög mikilvægu atriði. Í tillögu sérnefndarinnar sem kemur fram í brtt. segir, með leyfi forseta:

,,Í athugasemdum með fjárlagafrumvarpi skal gera grein fyrir áformuðum samningum á fjárlagaárinu og áætlun um kostnað sem af þeim hlýst næstu þrjú fjárlagaár. Jafnframt skal gera grein fyrir markmiðum og ávinningi ríkisins af áformuðum samningum.``

Þetta er sameiginleg tillaga sérnefndarinnar, allra fulltrúa í nefndinni, þannig að í hvert sinn sem ríkisstjórn leggur fram fjárlagafrv. leggur hún fram áætlun um þjónustusamninga sem þingið fær til umræðu. Meiri hluti þingsins tekur því ákvörðun og afstöðu til þess hvort eigi að gera þjónustusamning sem kemur fram í fjárlagafrv. Ég tel að þetta séu mjög vönduð vinnubrögð. Til að slíkur þjónustusamningur verði gerður þarf ekki eitt símtal, það þarf samþykki Alþingis fyrir fjárveitingunni og ræða þarf um þennan fyrirhugaða þjónustusamning áður en til þess kemur að hann sé gerður. Ég tel því að að þessu verki sé staðið eins vel og hægt er að hugsa sér samkvæmt brtt. Ég tel að þetta sé mikill fengur fyrir þá sem hafa mikinn áhuga á að styrkja ríkisreksturinn, eins og hv. 17. þm. Reykv., ég heyri það stundum á hans máli. Ég tel að það sé mikill fengur fyrir þá aðila að þessir hlutir sem varða ríkisreksturinn séu í betra horfi en þeir hafa verið hvað þetta varðar.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta frv. Ég er mjög ánægður með þær viðtökur sem brtt. sérnefndarinnar fá og þakka fyrir þær. Ég vona að þær skýringar sem ég hef gefið, sérstaklega á 30. gr., gefi tilefni til þess að hv. 17. þm. Reykv. endurskoði afstöðu sína og hún geti orðið jákvæðari eftir þessa ræðu.