1997-05-14 00:54:11# 121. lþ. 123.48 fundur 100. mál: #A fjárreiður ríkisins# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[24:54]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sturlu Böðvarssyni fyrir greinargóð svör en ég er honum hins vegar ekki sammála. Mér finnst greinin, eins og hún er núna, jafnvel eftir þær breytingar sem hafa verið gerðar á henni, allt of opin. Í henni segir að einstökum ráðherrum sé heimilt með samþykki fjmrh. að gera verksamninga og samninga um rekstrarverkefni, jafnvel rekstur heilla stofnana. Í því getur falist umbylting á starfseminni og það skiptir máli hvernig almannaþjónustan er rekin, hvort það eru arðsemissjónarmið, slíkir hagsmunir, sem þar ráða ferðinni eða hvort hún er skipulögð á öðrum forsendum.

Ég er hins vegar alveg sammála því að línan á milli rammafjárlaga og þjónustusamninga er ekki mjög skýr. Ég þykist vita að margir sem styðja þær breytingar sem er að finna í frv. telja sig vera að setja ríkisstofnunum skýrari leikreglur. Það er það eina sem fyrir þeim vakir. En það sem ég hef verið að reyna að benda á í málflutningi mínum er að annað og meira hangir á þessari spýtu. Það sem ég er að reyna að skýra út er að menn eru að mínum dómi að umbylta almannaþjónustunni, að gera hana að viðskiptastarfsemi sem er starfrækt á allt öðrum forsendum en verið hefur til þessa. Ef þetta er rétt, sem ég tel að sé, þá þurfum við að horfa á afleiðingarnar, líklegar afleiðingar þeirrar kerfisbreytingar, hvernig það kemur út fyrir skattborgarann, hvernig það kemur út fyrir notandann. Ég hef bent á það að ef við skoðum ekki aðeins þessa lagasmíð heldur aðrar lagabreytingar og önnur frumvörp sem hafa verið til umfjöllunar, þá verður ekkert um villst hvað vakir fyrir þeim sem leggja línurnar í þessum efnum.

Síðan aðeins að lokum vil ég segja að mér finnst það skorta í þessari umræðu að við fáum að vita nánar hvaða stofnanir hér gæti verið um að tefla. Skóla, sjúkrahús, löggæslu, fangelsi, hvar liggja þær línur?