Lánasjóður landbúnaðarins

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 10:50:20 (6433)

1997-05-14 10:50:20# 121. lþ. 124.10 fundur 424. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# frv., Frsm. meiri hluta GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[10:50]

Frsm. meiri hluta landbn. (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það henti hv. þm. Lúðvík Bergvinsson að reyna að gera þetta frv. tortryggilegt, reyna að gera nýjan lánasjóð tortryggilegan, en ég verð að segja það, hæstv. forseti, að hv. þm. talaði af mikilli vanþekkingu um málið.

Ég hélt að Alþfl. væri félagslega sinnaður flokkur en hér er sérhyggjan í fyrirrúmi hjá hv. þm. og hann skilur ekki málið. Það er rétt hjá hv. þm. að bændur eru ekkert of sælir í dag en hverjir bera meginábyrgð á því? Ekki er það síst Alþfl. sem hefur verið í ríkisstjórn lengi og farið offari gegn þessari stétt, því miður.

En ég vil segja um 8. gr. að ég hélt þó að hv. þm. skildi siðferði í peningamálum, að auðvitað verður að gera ákveðnar kröfur, það gera allar lánastofnanir og peningastofnanir, um að það sé rekstrargrundvöllur, að það sé veðrými til þess að lána. Og hvað sjóðagjöldin varðar þá eru þau hluti afurðaverðs. Það má deila um hver greiðir sjóðagjöldin. Það er alveg jafnt neytandinn eins og bóndinn, það er hluti afurðaverðs, og þó að sjóðagjöldin féllu burt alfarið þá lækkar varan ekki í verði. Þetta liggur fyrir. Þetta er fyrst og fremst sjóður með svipuðu sniði, þó dregið sé úr sjóðagjöldum, eins og Stofnlánadeildin hefur verið rekin, hann er til þess að koma til móts við landbúnaðinn, ungu kynslóðina sem er að byggja upp sveitirnar. Þess vegna fagna ég því enn að það skuli vera til félagshyggja í landinu sem skilur að framtakið er unga fólkið og það verður að koma til móts við það unga fólk sem ætlar sér að byggja upp sveitirnar á Íslandi. Það gerir þetta frv.