Lánasjóður landbúnaðarins

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 11:04:04 (6443)

1997-05-14 11:04:04# 121. lþ. 124.10 fundur 424. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# frv., EgJ
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[11:04]

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Eins og þau nál. sem flutt hafa verið við afgreiðslu þessa máls bera með sér þá hef ég ekki skrifað undir þau, hvorugt þeirra, og á í þessum efnum að því leyti, eins og nál. bera með sér eða a.m.k. mætti ætla, ekki samleið með mínum góðu flokksbræðrum og vinum sem starfa í þessari virðulegu nefnd. Við höfum hins vegar talað saman um þessi mál og það er alveg ljóst að ef við hefðum verið í forsvari í landbn. Alþingis hefði ekki verið nokkur minnsti vandi fyrir okkur að komast að samkomulagi og niðurstöðu með breytingum á frv. sem hefðu að sjálfsögðu, eins og ég á nú eftir að lýsa, orðið til mikilla bóta. En það er líka vert fyrir mig að geta þess sérstaklega að ég hefi að því leyti haft nokkra sérstöðu bæði innan bændastéttarinnar og hér á Alþingi að ég hef haft miklar efasemdir um þá búvörusamninga sem gerðir hafa verið og séð á þeim, og skýrt það, margháttaða meinbugi sem m.a. eru að koma fram um þessar mundir.

Eins og ég gat um er ég ekki meðflutningsmaður að þessum tillögum og hef ekki heldur skrifað undir nál. um búnaðarsjóðinn. Það sama gildir um búnaðargjaldið sem kemur hér til umræðu í framhaldi af þessari umræðu núna. Þar mun ég að sjálfsögðu skýra mína afstöðu og ýmislegt koma fram þar sem út af fyrir sig hefði eins getað átt hér við á þessum vettvangi.

Í umræðu um búnaðarsjóð hefur auðvitað verið rakið hver tilurð hans var og er óþarft að fara yfir þau mál hér svo kunn sem þau eru. En menn verða auðvitað að taka tillit til þess að það eru gjörbreyttar aðstæður uppi í íslenskum landbúnaði. Stofnlánadeildin var grundvallaraflgjafi á umbótatímum í íslenskum landbúnaði. Þá nýttu velflestir bændur á Íslandi þá möguleika sem hún gaf þeim til aukinnar sóknar í framfaramálum vítt um sveitir á Íslandi. Þá var það auðvitað eðlilegur kostur að menn tækju þar nokkurn sameiginlegan þátt í að byggja upp lánasjóð sem gæti boðið bændum bærileg kjör. Nú þarf ekki annað en að fara yfir þær töflur sem fyrir liggja um það hvernig dregið hefur úr lánveitingum hjá Stofnlánadeild landbúnaðarins og hvað sjóðurinn hefur að þessu leyti miklu minna hlutverki að gegna heldur en áður var. Það liggur alveg ljóst fyrir að í stað umbóta sem þessi sjóður tók mið af þá störfum við núna, a.m.k. í hefðbundnum greinum, á grundvelli úreldingar. Það hljóta að vera nokkuð önnur viðhorf í sambandi við þróunarsjóð þegar viðhorfin hafa breyst með þessum hætti. Þetta blandast inn í þá umræðu sem hér á síðar eftir að fara fram.

Það kom fram hjá hv. 2. þm. Suðurl. og frsm. meiri hlutans hverjar breytingar hér væru. Í rauninni er í tillögum meiri hlutans einungis ein efnisbreyting og hún er um að hækka tillegg sauðfjárræktar og nautgriparæktar inn í Stofnlánasjóðinn en draga að sama skapi úr hlut annarra greina. Það verður auðvitað sagt að þetta hafi verið ósk Bændasamtakanna og þeir sem telja það góð og gild rök geta auðvitað forsvarað afstöðu sína með því en ekki veit ég og ekki fæ ég séð hvers vegna þessi breyting er svona þýðingarmikil. Með henni er búnaðargjaldið á sauðfjárræktina hækkað úr u.þ.b. 25% upp í 28%. Það er nokkuð sérstök ráðstöfun í þessu samhengi. Nautgriparæktin fer hins vegar með heldur lægri hlut inn í Stofnlánadeildina eftir þessar breytingar þótt hlutur hennar hafi verið hækkaður við þessar aðstæður. Hér hafa menn sem sagt fundið hjá sér einhverja sérstaka hvöt til þess að hækka tillegg sauðfjárræktarinnar til Stofnlánadeildar landbúnaðarins og á því hlýt ég að vekja alveg sérstaka athygli.

Þetta var um þessa efnisbreytingu og mér láðist alveg að taka eftir því hverjar skýringar framsögumaður gaf á henni og hver þessi ríka þörf er til þess að breyta hlutföllunum með þeim hætti að hefðbundnu greinarnar komi þarna með stærri hlut en ella væri.

Það sem fældi mig þó alveg sérstaklega frá því að styðja þetta nál. eru 8. og 9. gr. frv. Mér er eiginlega algjörlega fyrirmunað að skilja það hvernig mönnum dettur til hugar að setja fram texta eins og felst í 8. gr. þessa frv. Ef það væri út af fyrir sig hending eða slys eða hroðvirkni þá væri þar fengin skýring en það verður ekki annað séð en að texti 8. gr. sé tekinn af alveg sérstaklega yfirveguðu ráði enda var það eins og að koma við kviku í nefndarstarfinu að orða breytingar á 8. gr. Hér segir í 1. mgr. 8. gr., með leyfi hæstv. forseta.:

,,Um ákvörðun útlána skal hafa hliðsjón af því hverjar rekstrarforsendur viðkomandi búgreina eru og hversu há veðlán hvíla á eigninni ...`` Hér á með öðrum orðum að ákveða það hver afkoman er hjá viðkomandi búgrein, ekki hverjum og einum bónda, heldur búgreininni í heild sinni.

[11:15]

Það getur ekki verið að það sé nokkur vafi á því hvernig ber að skilja 1. mgr. 8. gr. Það er afkoma greinarinnar sem á að ráða. Hvernig skyldi þá verða farið með málefni þeirra búgreina sem borga einhvers staðar á bilinu 75--80% af lánasjóðsgjaldinu, leggja kannski fram nær 80% af lánasjóðsgjaldinu? Hvaða möguleika skyldu þessar greinar hafa til þess að fá lán eftir þetta meðlag og samkvæmt þessari orðanna hljóðan? Nú liggur fyrir að á síðustu fimm árum hafa fjölskyldutekjur í sauðfjárrækt minnkað um 46,4%. Fjölskyldutekjur á þessu tímabili hafa lækkað um hér um bil helming og árlega ganga sauðfjárbændur á eigur sínar að meðaltali um það sem nemur 4%. Hvaða hugsun felst nú í þessari 8. gr.? Það á að taka afstöðu til greinarinnar í heild sinni og það á að fara eftir rekstrarforsendum viðkomandi búgreina. Hvað verða eignir lengi til í þessari grein þegar það er gengið á þær um 4% á hverju einasta ári? Hvað lifir sú grein lengi sem hefur lækkað í fjölskyldutekjum úr 1,2 millj. kr. niður í rúm 600 þús. kr. eins og var á síðasta ári?

Því miður verður að segjast eins og er að mjög svipaða sögu er að segja af nautgriparæktinni. Í Morgunblaðinu í gær birtist útdráttur úr erindi sem var flutt norður á Akureyri á aðalfundi kúabænda þar af forstjóra Hagþjónustu landbúnaðarins. Hvað segir þar, með leyfi forseta?

,,Að óbreyttum forsendum stefnir kúabúskapur á Íslandi niður á við hvað afkomu varðar. Miðað við rekstrarafkomu 77 kúabúa á árinu 1991 til 1995 dragast búgreinatekjur saman um nær 8%, skuldir aukast um 23,5% og höfuðstóll`` --- taki menn nú vel eftir --- ,,rýrnar um 25%.``

Það eru 5% að meðaltali á ári í nautgriparæktinni. Hvernig rímar þetta nú við 8. gr. þessa dæmalausa frv.? Er þetta ekki dómur um afkomuna, um horfurnar í þessari búgrein? En samt eiga þessar tvær búgreinar sem 8. gr. snýst sér sérstaklega að, að leggja 80% í púkkið, inn í Stofnlánadeild landbúnaðarins, eða Búnaðarsjóðinn, eins og hann á að heita.

En skyldu þetta vera einhverjar tilviljanir eins og ég sagði áðan? Er þetta hroðvirkni eða kæruleysi? Eða er þetta stefna í málinu? Svo virðist reyndar vera. Svo vill til að landbn. barst álit valdamikilla manna í landbúnaðinum, sjömannanefndar. Þar er lánaþörfin skýrð afskaplega vel. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Samkvæmt þessari könnun sem til er vitnað eru til í landinu 3.450 fjárhús sem rúma um 740.000 fjár. Ásett sauðfé á sl. hausti var til samanburðar 487.000. Enda þótt um 40% þessara fjárhúsa séu 30 ára og eldri sýna þessar tölur að engin þörf er á fjárfestingum fyrir sauðfjárrækt á næstu árum miðað við gildandi búvörusamning og markaðshorfur sauðfjárbænda ef frá eru talin einstaka tilvik þar sem ljúka þarf þegar byrjuðum framkvæmdum.``

Það er bara engin þörf. Sjömannanefndin gerir úttekt á stöðu sauðfjárræktarinnar og leggur inn þessa umsögn og þessar skýringar. Það er bara engin þörf nema ljúka því sem kynni að vera í byggingu, kannski tveimur eða þremur fjárhúsum.

Ég held að það geti tæpast dulist nokkrum einasta manni hvað menn hrapa hér að gríðarlega miklu óráði í þessum efnum. Það er stórfurðulegt að ekki skuli vera hægt að koma við leiðréttingum í nefndarstarfi sem liggja svona ljóslega fyrir. Það vakti reyndar sérstaka athygli mína þegar forustumenn Bændasamtakanna og lánasjóðsins væntanlega og aðrir slíkir voru á ferli, að þær athugasemdir sem ég lagði þá inn í þá umræðu voru allar viðurkenndar sem réttar ábendingar. (GÁ: Hvaða athugasemdir voru það?) Ég hef nú m.a. komið með það hér í þessari framsögu og það má vel vera að þar hafi eitthvað hindrað að formaður nefndarinnar hafi búið yfir þeirri athygli í málflutningi sem hefði út af fyrir sig getað leitt til betri niðurstöðu.

Ég endurtek aftur að 8. gr. er aldeilis ferleg eins og hún er sett þarna upp. Það gildir auðvitað það sama um 9. gr. Eins og ég sagði áðan þá voru það þessar tvær greinar sem eru svona gríðarlega stefnumarkandi í þessu frv. Í rauninni ráða 8. og 9. gr. stefnunni í frv. sem auðvitað gerði það að ég skrifaði ekki undir þetta nál. Þarna er framsóknarandinn holdi klæddur.

Það er út af fyrir sig eðlilegur kostur að líta hér líka á 9. gr. þótt hún sé ekki eins alvarlegs eðlis því þar kemur í rauninni skýrt fram ... Já, það féll reyndar niður hjá mér, svo ég víki nú aðeins að því aftur við þessa dæmalausu 8. gr., síðari mgr. þeirrar greinar. En þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Upphæð lána má vera allt að 60% kostnaðarverðs eins og meðalkostnaður sambærilegra framkvæmda er talinn ár hvert.``

Nú er það þannig að til eru bændur sem hafa býsna góða stöðu gagnvart Stofnlánadeild landbúnaðarins. Einhvers staðar hef ég rekið mig á það að þeir muni vera líklega hartnær 1.000 sem ekkert skulda Stofnlánadeild landbúnaðarins. En þeir geta samt ekki fengið lán nema sem svarar 60% af kostnaði viðkomandi framkvæmda. Það gildir sem sagt alveg einu hver eignarstaðan er að öðru leyti. Það er bara 60% þessarar sérstöku framkvæmdar sem fæst að láni þótt jörðin með öllu tilheyrandi sé tekin að veði. Hvernig í ósköpunum geta menn verið að binda svona í lög? (GÁ: Þetta hefur verið svona lengi.) Já, hv. 2. þm. Suðurl. segir frá því að þetta hafi verið svona lengi. (GÁ: Og reynst vel.) Já, það hefur reynst vel til að þvinga niður lán til bænda. Svona er nú þessi uppsetning dæmalaus.

Að því er varðar 9. gr. þá eru það sérstaklega þessi einstæðu forréttindi að þessi sjóður sem hefur þó ríkisábyrgð, sem fær fleiri hundruð milljóna í framlög og hefur fengið, má ekki vera nema á fyrsta veðrétti. Hann má ekki vera nema á fyrsta veðrétti. Ef þar eru einhverjir aðrir þá eru bændur útilokaðir. Það er einhver texti hér um að þessi veðréttur gæti rýmkað fyrir öðrum sjóðum, en hér eru þessar þröngu skorður. Ég er ekki að segja að það eigi að hafa þetta allt galopið. En það er miklu betri kostur að ganga frá slíkum hlutum sem þessum í lánareglum sem auðvitað tækju þá mið af reglugerð sem settar er og hafa þarna einhvern sveigjanleika þannig að hægt sé að bregðast við breyttum aðstæðum þegar þær kunna að koma upp.

[11:30]

Því er ekki að leyna að ég hef verið í hópi þeirra bænda sem hafa talið að það ætti að byggja þessa lánastofnun upp á lágum vöxtum og eftir föngum að haga vöxtum þannig að bærilega væri við það unandi. Eins og þetta frv. er þá er í rauninni búið að koma í veg fyrir að ég geti stutt slíka vaxtatilhögun. 75--80% af niðurgreiðslufé kemur frá greinum sem samkvæmt orðanna hljóðan hafa ekki möguleika á því að fá lán í Stofnlánadeildinni eða í Búnaðarsjóðnum. Og þá held ég að það sé betri kostur að menn taki lán þar og viðskiptin verði með þeim hætti að þar greiði hver fyrir sig. Það er enginn afgangur til til þess að miðla öðrum í þeim greinum sérstaklega sem eiga að byggja þessar niðurgreiðslur upp. Það er enginn afgangur til nema síður sé. Og sem betur fer er Stofnlánadeildin eins og nú er vel efnum búinn sjóður, á góðan höfuðstól eigin fjár og mikið traust. Hún hefur ríkistryggingu og miðað við það framboð af fjármagni sem nú er á markaði og væntanlega með tilliti til þess að það gæti orðið ódýrara, þá getur Stofnlánadeildin, Búnaðarsjóðurinn, sem best endurlánað hagkvæm lán með litlu álagi. Og þá borgar hver fyrir sig.

Ég tek það fram alveg algjörlega skýrt að það er þessi framsetning sem gerir það að verkum að ég hef mjög miklar efasemdir um að það eigi að innkalla búnaðargjald til þess að greiða niður vexti.

Hæstv. forseti. Ég vona að ég hafi komið minni skoðun á þessu máli bærilega til skila. Ég mun skýra afstöðu mína síðar til Búnaðarsjóðsins og ef eitthvað stendur út af við þessa umræðu þá vona ég að öllum megi ljóst vera hver afstaða mín er til þessara mála.