Lánasjóður landbúnaðarins

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 11:57:00 (6452)

1997-05-14 11:57:00# 121. lþ. 124.10 fundur 424. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# frv., Frsm. meiri hluta GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[11:57]

Frsm. meiri hluta landbn. (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir málefnalega ræðu þó ég sé honum ekki sammála í öllum atriðum. Mér fannst undarlegt að tala um að snúa ofan af 25--30 ára vitleysu. Það var Ingólfur Jónsson, landbrh. og einn mesti sjálfstæðismaður, sem setti lögin um Stofnlánadeildina. Eins og kom fram hjá hv. þm. Agli Jónssyni hefur hún reynst bændum vel og ráðið úrslitum í því að við eigum í dag glæsilegan landbúnað sem á mörgum sviðum er samkeppnisfær og framleiðir mjög góðar afurðir. Ég tek undir með hv. þm. að það er mikilvægt að marka framtíðarstefnu til 10--20 ára eins og þingmaðurinn orðaði það. Ég held að landbúnaðurinn við núverandi aðstæður þurfi á því að halda og ég held að þeir flokkar sem nú eru í ríkisstjórn eigi að hafa kjark til að fara í þá vinnu sem allra fyrst. Ég held að það muni skipta mjög miklu máli bæði fyrir landbúnaðinn og lífið í landinu eins og það er.

Hv. þm. minntist á ferðaþjónustuna. Sú niðurstaða varð í starfi Stofnlánadeildar og Byggðastofnunar að það varð samkomulag um að til þess að þau lán væru á einum stað þá yrðu þau hjá Byggðastofnun. Þannig hefur það verið, þar eru þau. Það er mjög skýrt markað hvert niðurgreidd lán fara. Það er ekki til samkeppnisgreina. Auðvitað fer stór hluti þeirra til jarðakaupa og síðan í byggingar í þeim greinum sem greiða sjóðagjöldin.